Markmið Flugheims
Ljóst er að lengi hefur vantað ítarlegan, heilsteyptan upplýsingavef um íslensk flugmál. Við hjá Hugmóti afréðum því að leggja drög að slíkum vef, með það að leiðarljósi að fá sem flesta flugmenn og aðra sem tengjast fluginu á einn eða annan hátt, til liðs við okkur. Vefurinn er stöðugt í mótun, því fréttir, tilkynningar, heilræði og annað í þeim dúr er óþrjótandi.
Flugheimi er ætlað að fjalla um flugmál frá sem flestum hliðum og mun hann innihalda mjög fjölbreytt efni. Markmið vefsins verður m.a. að greina frá því sem er að gerast í grasrót flugsins, að stuðla að auknu flugöryggi, örva áhuga ungs fólks á flugtengdu námi og vera vettvangur fyrir skoðanaskipti um flug almennt.
Á valmyndunum sérðu í aðalatriðum hvað vefurinn inniheldur. Meðal efnis sem boðið er upp á, má nefna:
- Íslensk Loftfaraskrá með myndum
- Fréttir og fréttatilkynningar í tengslum við flug
- Kynning á félögum, s.s. áhugamannafélögum, fagfélögum, flugskólum og flugrekstraraðilum
- Kynning á flugtengdu námi
- Flugorðasafn
- Flugtenglasafn
- Heilræðahorn
- Umræðuhópar þar sem áhugasamir um flug geta tjáð sig um tiltekna málaflokka
- Ljósmyndir af flugvélum til að setja m.a. á skjáborðið
- Yfirlit yfir kennsluefni í boði
- Flugreynslusögur o.m.fl.
Ýmsar hugmyndir hafa safnast í sarpinn um meira efni. Ætlunin að hafa vefinn sem líflegastan og að hann höfði til sem flestra sem vinna við flug, unna flugi eða hafa einhvern áhuga á því. Ef þig langar að koma einhverju á framfæri, t.d. greinaskrifum eða ljósmyndum, sem tengjast flugi á einhvern hátt, væri gaman að heyra frá þér. Við hvetjum alla sem vilja tjá sig um íslensk flugmál að viðra skoðanir sínar en virða um leið skoðanir annarra. Einnig kunnum við vel að meta ábendingar um efni og það sem betur má fara. Hafðu samband!
Ennfremur bjóðum við svonefndum flugpennum að miðla af reynslu sinni, öðrum flugmönnum til góðs. Sá sem leggur sitt af mörkum fær um leið góða kynningu á sér og sínu fyrirtæki/félagi, ásamt vefsíðu með flottu veffangi, t.d. www.flugheimur.is/helgi sem hann getur notað sem vísi að sinni eigin heimasíðu.
Á endanum verður allt efni á þessum vef sett í gagnagrunn og boðið upp á fjölbreytta leitarmöguleika. Í mörgum tilfellum mun efni ekki úreldast heldur verða hluti af þekkingargrunni eða íslenskri flugsögu og halda gildi sínu svo áratugum skiptir.
Vefurinn verður fjármagnaður með auglýsingum í öllum verðflokkum, allt frá 7.200 upp í 96.000 kr. á ári án VSK. Fréttatilkynningar og þátttaka í umræðuhópum verður ókeypis og öllum heimil.
Að sjálfsögðu þiggjum við einnig aðstoð frá samstarfsaðilum, styrktaraðilum og velgjörðarmönnum. Hafðu samband ef þú telur þig geta haft hag af samstarfi við okkur.
Með von um góðar undirtektir,
Ingólfur Helgi Tryggvason
framkvæmdastjóri (með flugbakteríu)