TF-LÍF í flugtaki  


 Þumalputtareglur í flugi
  

Hér er samansafn af vinsælum þumalputtareglum sem tengjast flugi. Margar þeirra hafa nýst flugmönnum í áraraðir til að bregðast fljótt við aðstæðum og vera vel meðvitaðir um stöðu mála. Reglurnar eru ekki í neinni sérstakri röð, en þó er reynt að flokka saman þær sem snúa að siglingafræði, veðurfræði, flugeðlisfræði, flugmennsku og svo ýmsu öðru. Ekki taka samasemmerkið mjög hátíðlega, því það ætti að vera ca. í flestum tilvikum! Ábendingar um fleiri reglur og rangfærslur í þessum, eru mjög vel þegnar. Sendu rafpóst á ritstjorn@flugheimur.is og þín verður getið á síðunni!

 Þumalputtaregla og nánari skýringar
 

Siglingafræði

Vegalengdir á sjónflugkorti (1:500.000)

Þumall á sjónflugskorti = 10 sjómílur og spönn = 60 sjómílur.

Gott að muna þessa "þumalputtareglu" þegar þú þarft að mæla fjarlægðir gróflega í grænum hvelli. Og til að rifja upp íslenskukunnáttuna, þá er spönn bilið milli fingurgóma þumals og litlafingurs á útglenntri hendi.

Frávik af flugleið (1 á móti 60 reglan)

Frávik í gráðum = Mílur af leið x 60 / Flogin vegalengd

Þessi regla hjálpar þér að reikna út hve mikil leiðarskekkjan er í gráðum frá áætluðum flugferli.
Dæmi: Þú ert á leið frá Reykjavík til Egilsstaða og uppgötvar að þú ert 2 mílur af leið þegar þú hefur flogið 30 mílur. Frávik frá áætluðum ferli er því = 2 x 60 / 30 = 4°

Lækkunarhraði fyrir aðflug

Jarðhraði (hnútar) x 5 = Lækkunarhraði (fet/mín.)

Þessi regla hjálpar þér að halda 3° aðflugshalla, bæði í blind- og sjónflugi. Önnur aðferð er margfalda hraðann með 10 og deila svo með 2 (ef þér finnst það auðveldara).
Dæmi: Þú ert í aðflugi með 90 KIAS (hnúta sýndan flughraða) og mótvindur er 10 hnútar. Jarðhraði er því um 80 hnútar og hæfilegur lækkunarhraði er því 80 x 5 = 400 fet/mín.

Fjarlægð til að hefja lækkun

Lækkun í þúsundum feta x 3 = Fjarlægð í sjómílum

Hentar vel til að hefja lækkun hæfilega snemma (miðað við að nota reglu fyrir lækkunarhraða hér að ofan). Þá þarftu ekki að taka miklar dýfur eða eyða orku með loftbremsum/flöpum. Það fer betur með mótorinn og farþegana!
Dæmi: Þú ert í 5.000 feta hæð og þarft að lækka þig niður í hæð umferðarhrings (1.000 fet). Lækkunin er 4.000 fet og hæfileg fjarlæg x 3 = 12 sjómílur.

Sjónlína

Kvaðratrótin af (hæð í fetum x 1,5) = Sjónlína í sjómílum

Ef þú þarft að reikna út drægi radíóvita eða talstöðvar, getur þessi regla komið að góðum notum.
Dæmi: Þú ert í 3.000 feta hæð og vilt vita hve langt talstöðin dregur. 3000 x 1,5 = 4.500 og kvaðratrótin af því = ca. 67 sjómílur.

Aukning raunverulegs flughraða með vaxandi hæð

TAS = IAS x (2% per 1000 fet)

TAS = True Airspeed (réttur flughraði). IAS = Indicated Airspeed (sýndur flughraði). Þar sem loftið þynnist og viðnám minnkar með hæð, sýnir hraðamælir flugvélarinnar lægri hraða en raunverulega er flogið á, eftir því sem hærra er flogið. Þessi formúla miðar við staðalloft, en frávik geta stundum verið þó nokkur.
Dæmi: Ef þú flýgur í 10.000 feta hæð og hraðamælirinn sýnir 100 hnúta, þá er réttur flughraði um 120 hnútar.

Beygjuhalli fyrir staðalbeygju (aðferð 1)

Beygjuhalli = Hraði í hnútum / 10 x 1,5

Staðalbeygja í blindflugi er 3° pr. sekúndu, þ.e. hringurinn tekur 120 sekúndur, og því er slík beygja oft kölluð 2 mínútna beygja. Til að ná þessum beygjuhraða þarf að halla flugvélinni mismikið eftir flughraða, þ.e. halli í gráðum er ca. 15% af flughraða í hnútum.
Dæmi: Ef þú flýgur á 60 húta hraða, þarftu að halla vélinni 60 / 10 x 1,5 = 6 x 1,5 = 9° til að taka staðalbeygju.
Annað dæmi: Ef flughraðinn er 150 hnútar, þá þarftu að halla (150 x 0,15) = ca. 23°

Beygjuhalli fyrir staðalbeygju (aðferð 2)

Beygjuhalli = (Hraði í hnútum / 10) + 7

Þetta er önnur aðferð (sjá 15% aðferðina hér að ofan). Hún er þó ekki nákvæm fyrir lága hraða (undir 80 hnútum)
Dæmi: Ef þú flýgur á 90 húta hraða, þarftu að halla vélinni 90 / 10 + 7 = 9 x 7 = ca. 16° til að taka staðalbeygju.
Annað dæmi: Ef flughraðinn er 150 hnútar, þá þarftu að halla (15 + 7) = ca. 22°

Ein tímaeining = 15 lengdareiningar

1 klst. = 15° lengdar / 1 mínúta = 15' lengdar / 1 sekúnda = 15'' lengdar

Þetta hjálpar þér að reikna út tímamun á milli tveggja staða. Finndu fyrst út mun á hnattstöðu staðanna (lengd), reiknaðu mismuninn í lengdargráðum og yfirfærðu það svo í tíma með þessari þumalputtareglu.

 

Flugeðlisfræði

Breyting á ofrishraða miðað við þyngd

Ofrishraði = Ofrishraði m.v. hámarksþyngd x kvaðratrótin af (þyngd/hámarksþyngd)

Ofrishraðar flugvéla eru ávallt gefnir upp miðað við hámarksflugtaksþyngd. Ef vélin er léttari en það, lækkar hraðinn m.v. kvarðratrótina af hlutfalli af hámarksþyngd.
Dæmi: Ef ofrishraði er 50 hnútar m.v. 1000 kg. og vélin er núna 800 kg. þá er nýr ofrishraði = 50 x kvaðratrót (800/1000) = 50 x 0,9 = ca. 45 hnútar.

Breyting á aðflugshraða miðað við þyngd

Fyrir hver 10% undir hámarksþyngd, ætti að lækka aðflugshraða um 5%. Stemmir vel við formúluna hér að ofan. Býsna mikilvægt, því 10% of mikill lendingarhraði, lengir lendingarbrunið um 20%.
Dæmi: Ef aðflughraði er 70 hnútar m.v. 800 kg. og vélin er núna 720 kg. þá er nýr aðflugshraði = 70 * 0,95 = ca. 67 hnútar.

Breyting á álagsstuðli og ofrishraða miðað við beygjuhalla

Álagsstuðull = 1 / cos (beygjuhalla)

Álagsstuðull er hlutfallsleg aukning álags á vænginn (auking lyftikrafts) miðað við þyngd vélarinnar í láréttu flugi. Þegar flugvél er beygt með því að halla henni, verður að auka lyftikraft vængsins til að vega upp á móti hliðarátakinu (beygjukraftinum). Ofrishraðinn eykst síðan í hlutfalli við kvaðratrótina af álagsstuðlinum.
Dæmi: Í 45° beygju er álagsstuðullinn = 1 / cos(45°) = 1 / 0,707 = 1,41
Ofrishraðinn eykst því um tæp 20%.
Annað dæmi: Í 60° beygju er álagsstuðullinn = 1 / cos(60°) = 1 / 0,5 = 2
þ.e. vængurinn þarf að framleiða tvöfaldan lyftikraft miðað við lárétt flug, ef halda skal hæð. Ofrishraðinn eykst um 41%.

Eðlisþyngdir helstu efna tengd flugi

Loft = 0,001225 kg/ltr = 1,225 kg/m³
Vatn = 1,0 kg/ltr = 1000 kg/m³ (þ.e. um 800 sinnum þéttara en loft)
Flugvélabensín = 0,71 kg/ltr = 710 kg/m³ = ca. 6 pund/gallon
Þotueldsneyti (Jet A1) = 0,81 kg/ltr = 810 kg/m³ = ca. 6,7 pund/gallon (getur verið nokkuð breytileg)

Þessar tölur gagnast m.a. við útreikning þyngdar og jafnvægis, mismun á flugtaksþyngd og lendingarþyngd o.fl.

 

Veðurfræði

Staðalloft (ISA)

Miðað við sjávarmál: Loftþrýsingur = 1013 hPa, hiti = 15 °C og þéttleiki lofts = 1,225 kg/m³ og hitalækkun með hæð = 2 °C pr. 1000 fet.

Þetta eru eiginleikar staðallofts sem notað er fyrir útreikning afkasta flugvéla í flugtaki, klifri og lendingu. Einnig notað þegar reiknuð er þéttnihæð (density altitude) út frá þrýstihæð (pressure altitude) og lofthita.

Lægsta mögulega skýjahæð

Skýjahæð í fetum = (hitastig - daggarmark) x 400

Þetta sýnir lægstu hæð þar sem rakaþétting getur átt sér stað. Þá er miðað við tiltölulega stöðugt loft, en algengt er að þessi hæð sé nokkru meiri m.a. vegna ókyrrðar í lofti.

Lækkun hita miðað við hæð

Hitastig í hæð = hitastig við jörð - (2 °C x hæð í þúsundum feta)

Þetta er meðaltal í andrúmsloftinu og getur verið bæði meiri/minni. Þurrinnræn hitalækkun er um 3 °C pr. 1000 fet (þ.e. í röku en ómettuðu lofti) og votinnræn hitalækkun er um 1,5 °C pr. 1000 fet (þegar rakt loft hefur mettast). Þessi munur stafar af losun varma við umbreytingu vatnsgufu í vatndropa/ískristalla.

Dæmi: Ef hiti er 6 °C í Reykjavík er hiti á toppi Esjunnar (sem er um 3.000 fetum ofar) nærri frostmarki.

Breyting vinds miðað við hæð (vegna viðnáms jarðar)

Vindátt og vindhraði hækka með vaxandi hæð

Miðað er við breytingu vinds frá jörðu upp í ca. 2000 feta hæð. Stefna vinds eykst oft um 20-30 gráður og vindhraði um 50%. Ástæðan er viðnám jarðar, þ.e. vegna landslags, gróðurs og mannvirkja, sem dregur úr vindhraða og beinir honum inn að lægðarmiðju. Ofar fylgir vindur að mestu jafnþrýstilínum og er þá nefndur þrýstivindur. Athugið: Á suðurhveli jarðar lækkar vindáttin með hæð, því vindur snýst þar öfugt um hæðir og lægðir miðað við norðurhvel.
Þetta merkir t.d. ef þú ert í aðflugi að óstjórnuðum velli (enginn vindur gefinn upp), með hliðarvind frá vinstri, þá mun hann verða meira á vinstri hlið, en styrkurinn minnka þegar nær dregur braut. Hliðarvindur frá hægri minnkar hins vegar og verður jafnvel að lokum beint í fangið eða frá vinstri þegar komið er að lendingu.
Dæmi: Ef vindur er 300° 12 hnútar við jörð, má búast við 330° vindi og 18 hnútum í 2000 feta hæð.

 

Flugmennska

Hlutfall hliðarvinds

5 - 7 - 9 sem útleggst: 30° = 50%    45° = 70%    60° = 90%

Þetta merkir að hliðarvindshluti (crosswind component) er 50% af vindstyrk ef vindstefna er 30° á lendingar/flugtaksstefnu. Hið gagnstæða (9 - 7 - 5) gildir til að finna mótvindshlutann (headwind component).
Dæmi: Þú ert að lenda á braut 13 í BIRK og vindur er 175° 20 hnútar, þ.e. um 45° á brautarstefnu. Þá eru bæði hliðarvinds- og mótvindshlutinn = 20 x 70% = 14 hnútar.
Annað dæmi: Þú ert að taka á loft frá braut 22 á BIEG og vindur er 280° 30 hnútar, þ.e. um 60° á braut. Hámarkshliðarvindshluti sem flugvélin er gerð fyrir, er 25 hnútar. Geturðu tekið á loft? 60° = 90% og 30 x 0,9 = 27 hnútar, sem er of mikið fyrir flugvélina þína. Þú verður því að bíða uns lægir eða vindur snýr sér, nema þú viljir prófa að taka á loft beint af flughlaðinu!

Áhrif vinds á flugtaks- og lendingarvegalengdir

Vegalengdir fyrir flugtak og lendingu minnka um 1% fyrir hvern hnút í mótvindi og aukast um 5% fyrir hvern hnút af meðvindi.

Dæmi: Ef flugtaksvegalengd er gefin upp sem 300 metrar og vegna hindrana verður þú að taka á loft undan vindi sem er þó aðeins 4 hnútar. Flugtaksvegalengdin verður því 300 + (300 x 4 x 5%) = 300 x 1,2 = 360 metrar.

Áhrif hitastigs á flugtaks- og lendingarvegalengdir

Vegalengdir fyrir flugtak og lendingu aukast um 1,5% fyrir hverja °C umfram staðalhita (15 °C), og styttast samsvarandi um hverja gráðu fyrir neðan staðalhita.

Dæmi: Þú ert að taka á loft frá Reykjavíkurflugvelli á fallegum vetrardegi, í 5 stiga frosti og 1013 hPa loftþrýstingi. Frávikið er 20 °C fyrir neðan staðalhita, svo stytting flugtaks ætti að vera um 20 x 1,5% = 30%.

Áhrif brautarhalla á flugtaks- og lendingarvegalengdir

Vegalengdir fyrir flugtak og lendingu aukast/minnka um 10% fyrir hverja gráðu sem brautin hallar.

Dæmi: Ef flugtaksvegalengd er gefin upp sem 300 metrar og brautin hallar uppávið um 2° þá verður flugtaksvegalengdin = 300 x 1,2 = 360 metrar.

Minnkun vélarafls fyrir lækkun

Fyrir hver 100 fet sem þú vilt fá í lækkunarhraða skaltu minnka snúningshraða um ca. 80 RPM ef vélin er með fastri loftskrúfu (eða MP um 1" ef vélin er með skiptiskrúfu).
Dæmi: Ef snúningshraði í farflugi er 2400 RPM og þú vilt ná lækkunarhraðanum 500 fet/mín. þá skaltu lækka snúningshraða um 80 x 5 = 400 RPM, þ.e. í 2000 RPM.

Eldsneytiseyðsla

Eldsneytiseyðsla (gallon/klst) fer nærri hestaflatölu mótors / 20 og er þá miðað við ca. 65% vélarafl.
Dæmi: TF-MAX er með 200 hestafla mótor. Eyðslan ætti því að vera um 10 GPH. (Handbókin segir 10,5 GPH m.v. 6500' og 2300 RPM).

 

Afl miðað við eldsneytiseyðslu

Þú færð u.þ.b. 12 hestöfl fyrir hvert gallon/klst.
Dæmi: TF-LMB er með 180 hestafla mótor. Ef þú vilt eyða 9 USG/klst, færðu ca. 108 hestöfl (60%). (Handbókin segir 8,4 GPH m.v. 2000' og 2300 RPM).

 

Ýmsar aðrar þumalputtareglur

Kostnaður á flugtíma

Kennsluvél ca. 10.000 kr./klst. með kennara
Einkaflugvél ca. 10.000 kr./klst. (án kennara)
Tveggja hreyfla vél ca. 15-20.000 kr./klst.
Listflugsvél ca. 20-25.000 kr./klst. (með kennara)
Þyrla ca. 30.000 kr./klst. (með kennara)

Þessar tölur eru bara til að gefa grófa hugmynd vegna útreiknings á kostnaði við flugnám og ferðalög. Þær breytast jafnt og þétt, eru mismunandi milli rekstraraðila og mjög háðar eldsneytisverði.

Hvað kostar einkaflugvél?

Ný einkaflugvél, 10-15 milljónir.
10 ára einkaflugvél ca. 5-7 milljónir
30 ára einkaflugvél ca. 2-3 milljónir

Verð véla fer að sjálfsögðu eftir tegund, stærð, ástandi, búnaði og tíma eftir á mótor. Ofangreind verð gefa samt grófa mynd af kostnaði við kaup á einshreyfils, 4 manna einkaflugvél.

 Heimildir:


 © 2002-2007, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn
Sett upp 28.10.2002
Síðast uppfært 23.5.2007