Mín tvö fyrstu sóló
Undirritaður tók sóló-próf í fyrsta sinn árið 1974, þá 17 ára gamall. Rúmum 27 árum síðar upplifði hann það í annað sinn að taka fyrsta sóló. Með því telst sannað að miðaldra karlmenn geta látið flugdrauminn rætast, þrátt fyrir skyldur og skuldahala. Í pistlinum lýsir hann tilfinningunni sem fylgir því að fljúga einn í fyrsta sinn, bæði fyrr og nú.
Mitt fyrsta fyrsta sóló
Það var á sólríkum haustdegi árið 1974, nánar tiltekið þann 7. október, sem ég tók mitt fyrsta sóló-próf. Þá var ég 17 ára renglulegur unglingur sem hafði þjáðst af flugdellu frá unga aldri og dvalið löngum stundum í skurðum meðfram flugvellinum við myndatökur og flugvélagláp. Síðar frétti ég að slíkir sérvitringar væru kallaðir "spottarar" í eilítið annarri merkingu en finna má í íslensku orðabókinni.
Ég hóf flugnám hjá Flugskóla Helga Jónssonar um miðjan ágúst sama ár og flaug fyrst vélunum TF-FHB og TF-FLD. Eitthvað var ég víst tregur því mér var ekki hleypt í sóló fyrr en með 19 tíma í logg-bókinni. Í þá daga var það ívið formlegra en nú til dags, því sérstakur prófdómari frá Flugmálastjórn tók að sér verkið. Ef mig misminnir ekki, var það hinn gamalreyndi Sigurjón Einarsson, sem margir kannast við.
Hann situr með mér í tvo hringi, en stingur mig svo af úti á miðri braut! Þá var ekkert annað að gera en að anda djúpt, kyngja hressilega og segja "Gúlp, hvað er ég að gera hérna?". Eins og flestir vita, þá eru flugkennarar sumir hverjir svo þungir að ekki er einu sinni hægt að fylla Cessnu 150 með eldsneyti ef þeir eru meðferðis. Sá sem hafði kennt mér mest, Þórhallur Magnússon, féll tvímælalaust í þennan hóp þótt hann væri alls ekki feitur heldur bara stórvaxinn og þrekinn. Sigurjón prófdómari var hins vegar nokkuð nettari.
Jæja, flapsar upp, blöndungshiti inn, allt í botn og af stað. Þegar maður tekur á loft í fyrsta sinn einn og yfirgefinn, þá eru flugeiginleikar vélarinnar allt aðrir en með þungan kennara sér við hlið. Enda rauk vélin í loftið með tilheyrandi "jahúúú" og "jabbadabbadú" upphrópunum, sem ég vona að enginn hafi heyrt, nema sá sem allt sér og heyrir! Og klifurhraðinn jókst úr 500 fetum á mínútu í rúm 800 fet. Vááááááááá!
Sem sagt, tvö flugtök, tveir umferðarhringir og tvær lendingar ... þá var allt fjörið búið. Samtals 20 mínútur, þar af 10 mínútur í sóló. Við tók pappírsvinna, uppáskriftir og stimplingar og síðan bið eftir einliðaflugs-skírteininu. Það var reyndar ekki löng bið, því skírteinið var gefið út daginn eftir og ber númerið 1552. Mikið var maður stoltur daginn þann!
A-prófið tók ég svo loks í október 1977 og flaug tæpa 10 tíma eftir það. Alvara lífsins, húsnæðisbasl og góðgerðastarf fyrir fjármálastofnanir (sem lánþegi) tók við. Flugið var lagt á hilluna, úthrópað sem rándýrt og eigingjarnt sport sem virðulegir fjölskyldufeður gætu nú ekki verið þekktir fyrir að stunda. Samtals 104 tímar í logg-bókinni þegar skírteinið rann út ... búúúhúhúhúúúú!
En flugbakterían er lífseig. Tuttugu og sjö árum, 8 börnum og sennilega þrjátíu kílóum síðar tókst mér loks að fljúga sóló á nýjan leik ...
Flugdella vakin af Þyrnirósarsvefni
Í maí 1999 fór ég í geysigott flug til Vestfjarða, ásamt vinnufélaga mínum Axel Eðvarðssyni, eiginkonu minni og syni. Farkosturinn var TF-FBA, mikill gæðagripur sem ég hafði prófað lítillega á árum áður; með uppdraganleg hjól og skiptiskrúfu. Ferðin tók alls 8 tíma, þar af 3 tímar á flugi í þokkalegasta veðri, með viðkomu á Þingeyri og Ísafirði. Er skemmst frá því að segja að þetta var það sem þurfti til að endurvekja flugdelluna af værum blundi.
Vorið 2001 stóð Geirfugl fyrir fjölgun hluthafa vegna kaupa á TF-MAX. Greip ég þá gæsina og keypti 1% hlut á 225.000 kr. (mér skilst að það jafngildi svona öðru aðalhjólinu á MAX-inum). Eitthvað voru stjórnarmenn félagsins vantrúaðir á að svona sérlundaður náungi gæti nú tekið prófið á ný, en hleyptu honum samt í félagið.
Í september 2001 hóf ég loks flugnám á ný, nú hjá Geirfugli og með Margréti Hrefnu Pétursdóttur mér til leiðsagnar. Í fyrstu flugum við Socata-vélunum TF-TBX, TF-BRO og TF-MAX sem eru stórgóðar vélar, bæði hvað varðar flugeiginleika og hve vel fer um flugmenn og farþega. Auk þess eru þær 4-5 manna, svo ég gat boðið vinum og kunningjum með í flugtímana til að sanna fyrir þeim hve ég væri klár! En TF-ICE var notaður í 2 tíma áður en stundin mikla rann upp ... í annað sinn.
Mitt annað fyrsta sóló
Eins og flestir vita er dagurinn stuttur, styttri, stystur á haustin og snemma vetrar hér uppi á Fróni. Að auki er hann Kári alltaf að byrsta sig og því erfitt að finna tíma til flugæfinga á þessum árstíma. En á rúmum tveimur mánuðum tókst þó að skrapa saman 10 tíma flugreynslu í upprifjun og aðlögun að nýjum vélum. Þann 21. nóvember 2001 rann stóri dagurinn loksins upp. Veðurspáin var þokkaleg og bauð upp á norðvestan strekking með gaddi en engri úrkomu. Enda kom það á daginn: 10 gráður og 10 hnútar með smágusti upp í 15 hnúta, skýjahæð 3000 fet, 1° frost og QNH 1011 hektópaskal.
Flugtækið þennan dag var TF-ICE sem er svo sem engin lúxus-rella en í þokkalegu standi og með nýjan propp. Flugtak á braut 01, flogið út yfir Örfirisey og vinstri umferðarhringur. Margrét Hrefna sat í tvo hringi og sagðist ekki ætla að segja eða gera neitt nema ég væri á leiðinni að fremja flugslys. Síðan bað hún um að fá að fara út við Skýli 4 og sagði bara "Bless, sjáumst í Hreiðrinu" ... Alone again, naturally!
Jæja, draga djúpt andann, kyngja hressilega og segja í talstöðina "Turn, Ingi Ceres Einar, tilbúinn við Skýli 4 fyrir fyrsta sóló". Aka í flugtaksstöðu á braut 01, tékka á trimmi, flöpsum, blöndungshita, stefnusnúðu og transponder. "Ingi Ceres Einar, vindur 40 gráður 8 hnútar, heimilt flugtak braut 01". Kvitta, gefa allt í botn, hraðinn upp í 60 mílur, rótera og upp fór ég ... aleinn! Hraði 75 mílur, halda brautarstefnu, veifa kennaranum, hrópa "jahhúúú" og fylgjast með flugumferð. Smá myndataka svona í leiðinni enda vanur maður á ferð. Beygja undan vindi, halda 1000 fetunum, kalla á turninn, blöndungshiti á, draga af í 1500 snúninga, hraði í 75 mílur, flapsar niður í áföngum og muna að fara ekki niður fyrir 500 fet yfir Kópavogi á lokastefnu. Margrét Hrefna er í léttara lagi svo flugeiginleikar vélarinnar breyttust ekki mikið í hennar fjarveru (reyndar er nákvæm þyngd hennar einkamál, sem aðeins er gefið upp á þyngdar- og jafnvægisskýrslunni).
Í þetta sinn framkvæmdi ég einn og óstuddur hvorki meira né minna en 3 flugtök og 3 lendingar, hver annarri mýkri að sjálfsögðu, enda var vindur nú tekinn að snúast í 40 gráður og kominn niður í 5 hnúta. Eftir lokalendinguna munaði minnstu að spikfeit gæs í lágflugi yfir brautinni lenti í proppnum hjá mér. Það slapp þó fyrir horn; hún hélt lífinu, ég óbeygluðum proppnum. "Ceres Einar, halda hraða og rýma við Echo" segir flugumferðarstjórinn, sem er kona með undurblíða talstöðvarrödd. Kvitta. "Til hamingju með fyrsta sóló, Ceres Einar". Ég svara að bragði: "Þetta er reyndar mitt annað fyrsta sóló, en takk samt, Ceres Einar!". Upp með flapsa, transponder í standby, taxera Echo, Golf og út í skýli. Þetta var gaaaamaaaan!
Einn stoltur flugnemi skreið út úr vélinni, hálffeginn samt að hafa Terra Firma undir fótum og tók við hamingjuóskum Margrétar Hrefnu. En ætti hún ekki að vera hreykin af því að geta kennt gömlum hundi að FLJÚGA?
Ingólfur Helgi Tryggvason
Flugnemi með flugdellu á alvarlegu stigi!