Fylgstu með ástandi mótorsins
Með nokkrum einföldum athugunum fyrir flug, meðan á flugi stendur og eftir hvert flug, geturðu öðlast mun betri mynd af ástandi mótorsins og aukið traust þitt á flugvél þinni. Hér eru nokkur ráð:
Fyrir flug:
- Skoðaðu magann á flugvélinni. Á flestum flugvélum endar sá vökvi sem lekur á mótornum og í kring hann á maga flugvélarinnar. Dökkt sót er merki um ríka eldsneytisblöndu eða leka á afgasi fram hjá stimpilhringjum.
- Renndu puttanum eftir innanverðu afgasrörinu. Ef eldsneytisblanda og olíueyðsla er eðlileg ætti puttinn að vera hreinn eða hafa ljósan lit af sóti. Ef svart þurrt sót er á puttanum er mótorinn keyrður á of ríkri eldsneytis/loft blöndu (mixtúru). Ef svart olíukennt sót er á puttanum brennir mótorinn of mikilli smurolíu.
![]()
- Þefaðu eftir bensínlykt innan úr mótorrýminu. Litlir lekar gufa upp og eru kannski ekki nógu miklir (ennþá) til að koma fram sem dropar eða litlir pollar. Lekar geta komið fram á tengjum fyrir forgjöf (primer), slöngutengjum eða á sjálfum slöngunum.
- Athugaðu litinn á smurolíunni. Ef hún er svört gefur það til kynna að afgas leki fram hjá stimpilhringjum í smurolíuna.
Gangsetning:
- Hlustaðu eftir óvenjulegum hljóðum á meðan startarinn snýr mótornum. Þú ættir að heyra í startaranum og smellukveikjunum. Ekkert lofthljóð á að heyrast út um loftinntak og öndun mótorsins.
- Ef startarinn snýst en ekki skrúfan á Lycoming mótorum er Bendixinn farinn að festast. Yfirleitt dugar að þrífa Bendix-öxulinn og smyrja hann upp með sílíkon-sprayi. Hafa skal þó samband við flugvirkja.
- Ef erfitt er að gangsetja mótorinn undir eðlilegum aðstæðum eru kveikjurnar líklega orðnar slappar.
Hægagangur:
- Mörg vandamál með mótorinn koma fram við hægagang. Gangtruflanir vegna sót- eða blýmengaðra kerta, fastur ventill, eða vökvaundirlyfta sem vinnur ekki rétt eru algengar truflanir sem greina má við hægagang.
- Gangtruflanir af sótmenguðum kertum lagast við að gefa mótornum afl en ekki ef kertin eru blýmenguð. Sótmengað kerti gefur til kynna að það gefur ekki stöðugan neista við bruna eða að eldsneytisblandan sé of rík. Blýmengað kerti gefur til kynna of ríka eldsneytisblöndu eða að aflið sé aukið of hratt við flugtak.
- Lélegar vökvaundirlyftur koma betur í ljós við hægagang en á flugi. Olía sem lekur úr slitinni vökvaundirlyftu veldur því að bil myndast á milli lyftu og rokker-arms sem gerir það að verkum að rokker-armurinn slær á ventilinn í stað þess að ýta honum í opna stöðu. Við þetta myndast áþekkjanlegt hljóð frá mótornum sem kallað er ventlabank. Bankið hverfur svo við það að köld olía streymir inn í undirlyftuna. Þar sem köld olía er seigari en heit olía lekur hún ekki jafn hratt úr undirlyftunni og sú heita, veldur það því að undirlyftan "pumpast" upp og lokar því bili sem hafði myndast. Við það hverfur hljóðið. Þetta er því í ágætis lagi svo lengi sem hljóðið hverfi fljótlega. Ef ventlabankið heyrist reglulega skal skipta um undirlyfturnar. Slitnar eða ónýtar undirlyftur valda því að ventillinn slæst utan í sæti sitt og gæti brotnað.
- Er smurolíuþrýstingurinn eðlilegur? Lár smurolíuþrýstingur við hægagang og hár olíuþrýstingur á flugi stafar oftast af leka í smurolíukerfinu sem ekki er hægt að lagfæra með því að stilla smurolíuþrýstinginn.
Flugtak:
- Er snúningshraði (RPM) lægri í flugtaki en venjulega? Ef flugtök eru að lengjast og klifurgeta að minnka er ekki ólíklegt að kambur á kambás sé að fletjast. Slitnir kambar á kambás (knastás) valda því að snúningshraði lækkar jafnt og þétt á mótor sem annast snýst eðlilega hratt.
- Fylgstu með gangi mótorsins og að aflið aukist jafn og þétt.
- Er sogdæluþrýstingurinn eðlilegur? Ef sogdæla er að syngja sitt síðasta þá framleiðir hún oft minni sogþrýsting nokkrum flugum áður en hún hrynur.
Farflug:
- Kveikjuvandamál gera oft vart við sig í klifri. Vandamálið gæti horfið við það að draga af niður í farflugsafl. Hár soggreinaþrýstingur (Manifold pressure) krefst meiri spennu frá kveikjunum til að mynda neista fyrir kertin en lár soggreinaþrýstingur. Sést á því að ef hægt er að stjórna vandanum með því að breyta soggreinaþrýstingnum þá liggur vandamálið líklega í kveikjunum.
- Upp að vissu marki fylgir smurolíuþrýstingur smurolíuhitastigi og smurolíuhitastig strokkhaushita (CHT). Eftir því sem olíuhiti hækkar, lækkar olíuþrýstingur. Eftir því sem strokkhaushiti hækkar, hækkar olíuþrýstingur. Samband þetta er þó ekki línulegt, og er stundum jafnvel ekki til staðar. Til dæmis hækkar hitastig smurolíunar við það að heitt afgas kemst í hana þegar stimpilhringir eru ekki þéttir, án þess að breyting sjáist á strokkhaushita. Þetta er þó hægt að nýta sér til viðmiðunar um það hvort mælar sýni rétt.
Stöðvun:
Heimildir:
- Snúningur mótorsins ætti ekki að aukast meira en 100 RPM þegar blandan er sett í veikustu stöðu (idle cutoff). Aukning upp á meira en 50 RPM bendir til þess að hægagangs blandan sé of rík. Besta hægagangs blandan er sú sem er nógu rík til þess að gefa góða snúningshraða aukningu við allar aðstæður, en nógu veik til þess að valda ekki gangtruflunum og að kertin sótist. Aukning um 25-50 RPM fullnægir yfirleitt báðum skilyrðum.
- Athugaðu maga flugvélarinnar aftur.
From the ground up.
Sky Ranch Engineering Manual.
Guðmundur T. Sigurðsson tók pistilinn saman