Flug um gosstöðvarnar
Samið 9.4.2010. Síðast uppfært 23.8.2014.
![]()
Eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli hefur dregið til sín fjölda fólks, sem vill verða vitni að þeim ógnarmætti sem birtist við eldgos. Kraumandi gígar, glóandi hrauntaumar, hrikalegir hraunfossar, gufusprengingar og drunur; allt er þetta stórkostleg upplifun. Að sjá eldgosið úr lofti er líka tilkomumikið, en ýmislegt þarf að hafa í huga til að tryggja öryggið. Hér finnur þú heilræði byggð á reynslu undirritaðs, sem hefur farið í 19 gosflug þegar þetta er ritað.
Helstu hættur á svæðinu:
Öllum er ljóst að ýmsar áskoranir og hættur fyrir flug leynast á svæðinu. Helstar má nefna:
- Flugbann stjórnvalda
- Gjall og glóandi hraunslettur úr gígunum
- Öskufall
- Ókyrrð vegna hitauppstreymis
- Ókyrrð vegna vinda til fjalla
- Mikil flugumferð
- Lágflug
- Léleg veðurskilyrði
- Langur flugtími
Hvernig mæta má þessum áskorunum:
- Virtu flugreglur sem gilda um svæðið
Þegar eldgos hefst, setja stjórnvöld gjarnan flugbann innan tiltekins radíusar frá miðju hættusvæðisins. Kynntu þér reglur sem gilda flug á svæðinu, og hvar flugbann er í gildi hverju sinni. Notam og upplýsingar frá Almannavörnum Ríkisins geta hjálpað til við að fylgjast með framvindunni. Virtu þessar reglur, því þær eru settar með öryggi almennings í huga. Þú gætir misst flugréttindin ef þú "stelst" inn á svæðið. Auk þess gætir þú orðið fyrir barðinu á fljúgandi hraunmolum, öskufalli, gufusprengingum og eldingum.
- Hugaðu vel að veðri
Mikilvægasta atriðið er að kynna sér vel veðurspá og aðstæður á gosstaðnum, skömmu áður en þú leggur í hann. Þar kemur Flugveðrið á vef Veðurstofunnar og Belgingur sér vel. Vefmyndavélar Mílu, Vodafone og á Múlakoti gefa býsna góða mynd af ástandinu. Ef veðurskilyrði eru ekki góð, t.d. meiri vindur en 10-15 hnútar eða skýjahæð undir 5.000 fetum, borgar sig að bíða eftir betra veðri.
- Láttu vita af ferðum þínum mjög reglulega
Flugmenn á svæðinu ræða saman á landstíðninni 118,1 MHz. Góð regla er að láta aðra vita af sér mjög oft, þ.e. gefa upp kallmerki, staðsetningu, hæð og fyrirætlanir. Til þess þarftu að kynna þér vel staðhætti á svæðinu, með því að skoða gott landakort. Þórólfsfell, Langidalur, Básar, Útigönguhöfði, Morinsheiði, Heljarkambur, Gónhóll, Gígjökull, Lónið og önnur slík örnefni er gott að hafa á hreinu.
- Stilltu hæðarmælinn á QNH 1013 hPa / 29.92"
Einhverra hluta vegna hefur þetta orðið að hefð við flug umhverfis gosstöðvarnar, þó ekki sé um blindflug að ræða (sennilega leti hjá þyrluflugmönnum á svæðinu). Eðlilegra væri að miða við QNH á Bakka. Ef hins vegar allir eru á sömu stillingu, er viðunandi hæðaraðskilnaður tryggður, sem er lykilatriði til að auka flugöryggið. Stilltu því á staðalþrýsting og gefðu upp flughæð með skýrum hætti, til dæmis: "Gosstöðvar traffík, Ingi Sigurður Einar, austan við gíg í 4.500 fetum miðað við standard, í hægri hring" svo ekkert fari milli mála.
- Láttu ljós þitt skína
Lendingarljós, viðvörunarljós (anti-collision beacon) og leifturljós (strobe) skal að sjálfsögðu að hafa kveikt til að sjást sem best.
- Byrjaðu hátt og lækkaðu þig síðan
Ef þú byrjar hátt, t.d. í 7.000 fetum og lækkar þig smám saman í 4.000 fet nærðu bæði fjölbreyttari sjónarhornum fyrir farþegana og getur betur metið aðstæður á svæðinu þegar þú fikrar þig neðar. Einnig er gott að byrja á víðum hringjum og þrengja þá síðan, m.a. til að sjá vel hraunfossana norðan við eldstöðina.
- Mundu að afköst flugvélarinnar minnka með hæð
Brunahreyflar í flugvélum missa afl sem nemur ca. 3,5% pr. 1.000 fet. Það þýðir að við gosstöðvarnar er vélaraflið 15-20% minna en við sjávarmál. Klifurgeta flugvéla minnkar meira en sem þessu nemur, því virkni loftskrúfunnar minnkar líka. Dæmi: Hámarksklifurgeta C-172 minnkar úr 815 í 600 fet/mínútu í 4.000 fetum m.v. 0°C við sjávarmál, eða um rúm 26%. Því er skynsamlegt að ofhlaða ekki flugvélina, heldur reyna að hafa hana léttari en sem nemur hámarksflugtaksþyngd. Sjá nánar: How to lighten up á fjallaflugsíðunni hennar Amy Hoover.
- Fljúgðu réttsælis umhverfis gígana
Flestir flugmenn sammælast um þetta fyrirkomulag, m.a. vegna þess að í flugvélum eru fleiri farþegar hægra megin. Hægri hringur hentar því best fyrir myndatökur. Að vísu snýr þetta öfugt í þyrlum, en þær eru hvort eð er að sveima neðar en flugvélarnar.
- Hugaðu vel að vindátt og öskufalli
Ef norðanátt ríkir, leitar aska úr gosinu til suðurs. Ef þú flýgur í gegnum öskufall, þá heyrir þú mjög greinilegt hviss-hljóð. Askan getur stíflað loftsíu mótorsins, sandblásið framrúðuna og eyðilagt lakkið á flugvélinni; eitthvað sem enginn kærir sig um. Við slík skilyrði þarftu kannski að teygja úr hringnum eða fljúga fram og til baka öðrum megin við gíginn.
- Ekki fljúga beint yfir gíga eða glóandi hraun
Ef þú gerir það, geturðu fengið óvænta sendingu frá eldfjallinu eða lent í mikilli ókyrrð vegna hitauppstreymis. Í framhaldi verða farþegarnir gulir og grænir í framan ...
- Hafðu ælupokana tiltæka
Ókyrrð á svæðinu getur orðið talsverð og ef farþegarnir þínir eru ekki þeim mun "sjóaðri", þá MUNU þeir æla ...
- Vertu vakandi fyrir fjallaókyrrð
Landslagið við Fimmvörðuháls einkennist af klettum, djúpum giljum og skorningum, sem geta valdið mikilli ókyrrð ef eitthvað blæs. Norðanátt er yfirleitt betri en sunnanátt, því í norðanátt er í það minnsta uppstreymi norðan megin, sem hjálpar við að halda nægri flughæð. Reyndu að hafa alla hluti vel festa, svo þeir fari ekki á flakk ef þú lendir í mikilli ókyrrð.
- Forðastu óþarfa lágflug
Við aðstæður eins og er að finna á gossvæðinu, getur verið mjög freistandi að lækka flugið nánast ofan í harða grjót. En það borgar sig ekki: Í fyrsta lagi er það ólöglegt, því 500 feta lágmarkið gildir alls staðar á landinu nema við flugvelli. Í öðru lagi er það heimskulegt, því svigrúm til að bregðast við vélarbilun eða ókyrrð verður mun minna. Gott viðmið er að fljúga alls ekki lægra en 200 fetum yfir Gónhóli (hái tindurinn sunnan við gígana sem rís meira en 90 metra yfir umhverfi sínu). Hafðu líka í huga að á jörðu niðri eru jafnvel þúsundir manna, vopnaðir myndavélum og vídeó-upptökuvélum, hverra upptökur gætu verið notaðar gegn þér. Viltu nokkuð missa flugskírteinið þegar þú mætir aftur í bæinn? Gott er að vista GPS-trakkinn eftir hvert flug, því hann getur verið þitt helsta sönnunargagn ef þú ert ásakaður um lágflug.
- Einbeittu þér að fluginu
Þar sem mikið er um að vera á Fimmvörðuhálsi, er lykilatriði að flugmaðurinn hafi allan hugann við flugið og fylgist vel með annarri flugumferð, en gleymi sér ekki við að glápa á gosið eða mynda það. Láttu farþegana taka myndir fyrir þig. Gættu líka vel að flughraðanum; krappar beygjur á litlum hraða geta verið mjög varasamar.
- Rifjaðu upp rétt neyðarviðbrögð
Vélarbilun í flugi yfir gosstöðvunum er ekki spennandi tilhugsun. Fumlaus viðbrögð og meðvitund um vindátt, landslag og mögulega nauðlendingarstaði, getur margborgað sig. Spor eftir jeppa og vélsleða sýna hversu hart og slétt undirlagið er og hvar hugsanlega er hægt að lenda umhverfis gígana með sæmilegu öryggi. Vegna þess að landslagið þarna hallar niður til norðurs, er jafnvel hægt að svífa til nauðlendingar í Þórsmörk (um 4 sjómílur frá eldstöðinni), ef þú ert í nægri hæð til að komast fram af brúninni. Til dæmis getur Cessna 172 svifið 6 sjómílur úr 4.000 fetum.
- Langur flugtími krefst góðs undirbúnings
Ef gosið er inni á hálendinu, getur það þýtt flugtíma upp á rúma klukkustund frá velli, eða í heildina 3-4 tíma flug. Slík langflug reyna oft talsvert á þvagblöðruna. Hafðu því nægt eldsneyti með í för, ásamt nesti, vatni og pissuflöskum.
- Gerðu eitthvað skemmtilegt á bakaleiðinni
Þó svo flugið yfir gosstöðvarnar sé í fyrirrúmi, getur verið góð tilbreyting að lenda í Þórsmörk/Múlakoti/Bakka/Skógum til að teygja aðeins úr sér. Flug yfir Skógafoss og Seljalandsfoss er líka alltaf vinsælt. Jafnvel hægt að skreppa til Vestmannaeyja og fá sér kaffisopa í Flugstöðinni.
- Prófaðu að gera Múlakot eða Bakka að bækistöð
Þar sem nánast allir ættingjar, vinir og vinnufélagar þínir vilja koma með í gosflug, getur verið skynsamlegt að stefna fólkinu á nærliggjandi velli og fljúga stuttar ferðir þaðan. Frá Múlkoti má ná fínu gosflugi á 30 mínútum og á 45 mínútum frá Bakka. Ódýrara og þægilegra bæði fyrir flugmann og farþega, því flug frá Reykjavík og til baka tekur 1,5 - 2 klst.
- Góð ráð fyrir myndatöku
Til að ná góðum myndum í gosfluginu, geta eftirtalin ráð komið sér vel fyrir farþegana:
- Hreinsaðu rúðurnar vel fyrir hvert flug, bæði að innan og utan.
- Taktu leifturljós af (annars speglast það í rúðunum).
- Því hærri lokarahraði, því betra. Hreyfing flugvélarinnar og ókyrrð veldur annars bara hreyfðum myndum. Notaðu "Shutter priority" og stilltu hraðann á minnst 1/250 sek.
- Með gúmmískyggni á linsunni má minnka hættu á speglun með því að hafa linsuna upp við rúðuna.
- Ef rúðan er opnuð til að fá skýrari myndir: Ekki reka linsuna út í loftstrauminn, því þá er mjög erfitt að fá óhreyfða mynd.
- Stilltu dagsetningu og tíma myndavélarinnar eins rétt og þú mögulega getur fyrir flug (eða taktu mynd af GPS-tækinu til að sjá frávikið upp á sekúndu). Með þessu móti geturðu notað GPS-trakkinn og Geotagging-hugbúnað til að staðsetja hverja mynd nákvæmlega og uppfæra EXIF-upplýsingarnar.
- Fyrir bestu kvikmyndatöku úr C-172 og öðrum háþekjum með vængstoðir: Færðu hægra framsætið alveg fram og láttu myndatökumanninn sitja í aftursætinu. Þá nær hann bestu myndunum skáhallt framávið, án þess að reka myndavélina út í loftstrauminn. Þessa aðferð notar Tómas Gunnarsson, myndatökumaður hjá Sjónvarpinu, en hann hefur flogið mikið með Ómari Ragnarssyni.
- Notaðu nettar linsur, því langar zoom- og aðdráttarlinsur henta illa í þröngum klefa flugvélarinnar.
- Bentu farþegunum á flott myndefni á leiðinni, því margt annað en gosið kemur til greina.
Flottar myndir frá gosinu:
Hér eru nokkrir tenglar á myndir sem farþegar mínir og aðrir vinir hafa tekið af gosstöðvunum:
- Gosmyndir Baldurs Sveinssonar
- Myndasíða Díönu Mikaelsdóttur
- Myndasíða Finnboga Albertssonar
- Myndasíða Svanbergs Jakobssonar
- Myndasíða Arons Berndsen
- Gosmyndir Hólmfríðar Pálsdóttur
- Gosmyndir Ingólfs Helga
Ingólfur Helgi Tryggvason
Einkaflugmaður með flugdellu á alvarlegu stigi!
Allar ábendingar um efni sem hér á heima eru vel þegnar. Sendu tölvupóst til höfundar
© 2010-2014, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn