Heilræði fyrir farþega
  

Hér finnur þú nokkur heilræði fyrir farþega í einkaflugi og hvernig þeir geta undirbúið sig. Það er mikilvægt að þeir séu líka meðvitaðir um öryggi og hvernig brugðist skuli við óvæntum uppákomum. Ef farþegarnir eru vel undirbúnir fyrir flugið og fá að fylgjast með framvindu þess, eykst ánægja þeirra. Þeir verða þá frekar flugmanninum til aðstoðar í stað þess að trufla hann. Sum atriðin hér að neðan eru til að kitla hláturtaugarnar, en mundu að öllu gamni fylgir einhver alvara!

 
  • Þegar farið er um borð eða stigið frá borði, skaltu gæta þess að stíga ekki á vængbörð (flapsa) eða reka þig í stýrifleti, ljós, loftnet eða aðra viðkvæma hluti flugvélarinnar.

  • Forðastu hættulegan farangur, t.d. gaskúta, þrýstibrúsa, kveikjaralög, skotfæri, flugelda, málningu o.þ.h.

  • Neysla áfengis eða vímuefna fyrir flug er ekki gáfuleg.

  • Gættu þín á loftskrúfunni ef þú ferð úr vélinni eða í hana meðan hreyfill er í gangi.
    • Gættu þín líka á öðrum flugvélum á vellinum.
    • Loftskrúfa sem snýst sést mjög illa en virkar eins og sverð!
    • Að jafnaði gengur maður í loftskrúfu hér á landi á 10 ára fresti ... því miður fyrir hann!

  • Hafðu öryggisbeltin ávallt spennt. Ókyrrð í lofti gerir ekki boð á undan sér.

  • Farðu úr vélinni meðan eldsneyti er sett á hana. Flugvélaeldsneyti er eldfimt og því mjög skynsamlegt að vera úti en ekki inni í flugvélinni ef eldur brýst út.

  • Reyndu að trufla flugmann sem minnst í flugtaki og lendingu.

  • Ef þú situr frammí hjá flugmanninum, skaltu ekki grípa í stýrin nema hann leyfi þér það. Annars gætirðu átt von á óvæntri sendingu!

  • Ef þú sérð aðra flugvél eða fuglahóp nálgast óeðlilega, láttu flugmanninn vita af því.
    • Gefðu upp hæð og stefnu miðað við flugvélina ykkar (t.d. fyrir neðan klukkan 4).
    • Mundu að betur sjá augu en auga!

  • Reykingar eru ekki leyfðar um borð og eru auk þess slæmur ávani.

  • Ef þú finnur fyrir flugveiki (aukin munnvatnsmyndun, sviti, slen, eða velgja) þá skaltu:
    • Taka til ælupoka og nota hann ef með þarf, annars verða allir hinir líka flugveikir!
    • Forðast að hreyfa höfuðið að óþörfu.
    • Horfa út á sjóndeildarhringinn, helst fram á við.
    • Losa um hálsmál og belti.
    • Draga djúpt andann.
    • Opna lofttúðu eða biðja flugmanninn um meira ferskt loft í klefann.

  • Ef þér verður mál að pissa, skaltu bara halda í þér. Eina vitið er að pissa fyrir flug eða hafa meðferðis tóma flösku til að "tappa af". Það verður ekki nauðlent til þess ...

  • En ef kemur til nauðlendingar, sem er afar sjaldgæft:
    • Tryggðu að öryggisbeltið sé vel spennt.
    • Ekki fyllast skelfingu og trufla flugmanninn, hann hefur nóg á sinni könnu!
    • Settu allt laust dót í farangursgeymsluna ef tækifæri gefst.
    • Ef lent verður á sjó/vatni: Taktu til björgunarvestið og settu það á þig. Aðstoðaðu flugmann og farþega frammí að ná í sín björgunarvesti ef með þarf.
    • Hallaðu þér fram og spenntu greipar yfir höfuðið, rétt fyrir lendingu. Það tryggir mesta vernd gegn höggum.
    • Um leið og flugvélin stöðvast, skaltu flýta þér út!
    • Ef vélin staðnæmist á hvolfi, skaltu skorða þig vel af áður en þú losar beltið.
    • Ef þú kemst ekki út um dyrnar, sparkaðu þá hliðarrúðunni út eða reyndu við hina hurðina.
    • Aðstoðaðu aðra við að komast út sem allra fyrst.
    • Ef lent er á landi: Farðu frá flugvélinni sem fyrst, vegna eldhættu.
    • Ef lent er á sjó/vatni: Vélin er nokkrar mínútur að sökkva og á meðan geturðu staðið á vængnum.
    • Ef með þarf, finnur þú slökkvitæki nærri flugmannssætinu.
    • Eftir að allir eru komnir frá borði og eldhætta liðin hjá, má nálgast sjúkrakassa í farangursgeymslu.
    • Neyðarsendir er í öllum vélum og fer hann í gang við högg. Ef lendingin var mjúk, má gagnsetja hann handvirkt til að flýta fyrir björgun.
    • Ef þú ert með GSM síma á þér, máttu hringja í Neyðarlínuna (112) eða leigubíl (588-5522).

  • Ef þú telur að flugmaðurinn sé ekki starfi sínu vaxinn, skaltu telja upp að tíu áður en þú kvartar. Dæmi:
    • Ef hann er alltaf að lesa einhverja minnispunkta, þá er það ekki vegna þess að hann sé svo gleyminn eða illa að sér, heldur vegna þess að það er almenn regla í flugi!
    • Ef hann flýgur í hringi, þá er það ekki vegna þess að hann sé algjörlega ráðvilltur, heldur vegna þess að flugumferðarstjórinn bað hann um það!
    • Ef hann snýr sér að þér og segir "taktu við" þá er það ekki vegna þess að hann sé að falla í yfirlið heldur vegna þess að hann vill leyfa þér að prófa!
    • Ef hann segir þér að þegja, þá er það ekki vegna þess að hann sé stressaður, heldur vegna þess að þú talar of mikið ...

  • Ef þú ert einn að þessum fyrirhyggjusömu eða ætlar að verða flugmaður þegar þú verður stór:
    • Hafðu með nesti. Heitt kakó er sérstaklega vinsælt hjá samferðamönnunum.
    • Klæddu þig eftir árstíma og taktu góðan skjólfatnað með.
    • Hafðu myndavél og filmur með í för og taktu nokkrar myndir.
    • Gott landakort kemur sér alltaf vel (sérstaklega ef flugmaðurinn gleymdi sínu).
    • Kynntu þér staðsetningu neyðarskýla, fjallaskála og sveitabæja nálægt áætlaðri flugleið. Sumir hafa lifað af flugslys en síðan orðið úti — láttu það ekki henda þig.
    • Hafðu áttavita, hníf, álpoka, snæri, veiðarfæri og neyðarnesti meðferðis, bara svona til öryggis ...
    • Taktu GPS-tækið með og auka rafhlöður. Þegar maður þarf að ganga 50 km til byggða er ósköp notalegt að sjá töluna fara lækkandi ...
    • Klæddu þig í föðurland eða flotgalla svo þú getir svamlað tímunum saman í köldum sjó ...
    • Kauptu þér slysa- og líftryggingu — þú tryggir ekki eftirá!

  • En umfram allt: Njóttu ferðarinnar og útsýnisins!

www.flugheimur.is
Láttu okkur vita ef þú veist um fleiri atriði sem hér eiga heima.




 © 2001, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn