Hvað tekur við eftir A-prófið?
Loksins, loksins ertu kominn með A-skírteinið í hendur, eftir ómælt erfiði, lestur, flugæfingar og fjárútlát. Hvað svo? Til hvers má nota réttindin? Sumir vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera, en hér koma nokkrar hugmyndir ...
- Taktu vini og kunningja í útsýnisflug
Þetta er að sjálfsögðu það fyrsta sem maður gerir eftir A-prófið! Og ef einhver hefur styrkt þig fjárhagslega, skaltu bjóða viðkomandi í fyrstu ferð. En vertu sérlega vandvirkur, gefðu þér góðan tíma til að undirbúa flugið og útskýrðu í leiðinni allt fyrir farþeganum (láttu hann hafa Heilræði fyrir farþega til að lesa fyrir flugið og lestu sjálfur pistilinn Hver stjórnar?). Kosturinn við þetta er sá, að fyrr en varir eru vinir þínir og kunningjar orðnir svo spenntir að fljúga með þér, að þeir eru tilbúnir að taka á sig stóran hluta kostnaðarins. Hreint ekki slæmt ef þú hyggst safna tímum og reynslu. Forðastu samt alla sýndarmennsku, því sjaldan er flas til fagnaðar!
- Kynntu þér flugvelli úti á landsbyggðinni
Þetta er kjörin leið til að æfa sig í yfirlandsflugi, flugleiðsögu, landslagslestri, verklegri veðurfræði og öðru slíku sem tengist góðri flugmennsku. Til að hafa sem mest út úr hverjum tíma, skaltu undirbúa þig vel, skoða landakortið kostgæfilega, reikna út flugáætlun og fylgja henni nákvæmlega. Við mælum með bókinni hans Ómars Ragnarssonar, Flugleiðir í Íslandsflugi sem gefin var út 1992 og fæst hjá Flugmálastjórn. Kynntu þér vel ástand flugvallanna, t.d. með því að skoða AIP og hringja í umsjónarmenn þeirra. Reiknaðu með lengri lendingar- og flugtaksvegalengdum, sérstaklega á mjúkum malarvöllum og grasvöllum. Myndavél er ómissandi í farangrinum, til að mynda flugvellina úr lofti og flugkappana á jörðu niðri. Síðast en ekki síst, bjóddu vini eða kunningja með í för og kenndu honum allt sem þú veist um flug. Þannig skerpir þú eigin þekkingu og undirbýrð þig fyrir það sem koma skal, þ.e.a.s. flugkennarastarfið.
- Skelltu þér í veiðitúr eða útilegu
Fátt er rómantískara en flugveiðitúr með flugustöng eða bakpokaferð með flugvél í bakgrunni. Hér á landi eru margir staðir sem bjóða upp á slíkt, t.d. Hveravellir, Kerlingafjöll, Herðubreiðarlindir, Mývatn, Skálavatn og Þórsmörk, svo fáeinir séu nefndir. Fyrir slíkar ferðir er sérstaklega mikilvægt að kynna sér vel veðurspána og ástand viðkomandi flugvalla.
- Tengdu áhugamálin saman með fluginu
Segjum að þú hafir áhuga á jarðfræði og ljósmyndun (auk flugsins að sjálfsögðu, annars værir þú ekki að lesa þennan pistil). Þá er kjörið að skella sér í landslagsskoðun og myndatökuferðir. Fáðu einhvern með þér sem hefur svipuð áhugamál og þið getið flogið mörg hundruð klukkutíma yfir landið í leit að flottum jarðmyndunum, gígum, hraunbreiðum, söndum, jöklum, vötunum, árósum, strandlengjum, fjörðum, eyjum, klettadröngum og svo framvegis. Til að hafa upp í kostnað verður þú hins vegar að gefa út bók, selja glæsilegar ljósmyndir eða finna ríkan kunningja til að taka með í ferðirnar. Mundu bara að lágmarksflughæð er 500 fet yfir jörð ... og ekki segja neinum ef þú ferð neðar en það!
- Prófaðu öðruvísi flugvélar
Þar er af mörgu að taka, en það kostar stundum aðeins meira því þú þarft í flestum tilvikum að hafa kennara með. Stélhjólsvélar, sjóflugvélar, listflugvélar, tvíþekjur, mótorsvifflugur, mótorsvifdrekar, svifdrekar, svifflugur, fis-flugvélar, tveggja-hreyfla flugvélar, þyrlur og jafnvel fallhlíf með mótor, er meðal þess sem í boði er. Öll slík flugreynsla er mikils virði og bæði víkkar sjóndeildarhringinn og eykur flughæfni þína.
- Kauptu hlut í flugvél eða skráðu þig í flugklúbb
Þetta er sterkur leikur. Bæði færðu ódýrari flugtíma en hjá flugskólunum, auk þess sem þú kynnist fólki með sama áhugamál (sem sagt Friðrik, Lárus, Unnur, Gunnar). Fjárfestingin getur hlaupið á nokkrum hundraðþúsundköllum, en er í flestum tilfellum seljanleg á svipuðu verði. Áður en þú slærð til skaltu heyra í núverandi klúbbfélögum, hvernig þeim líkar við fyrirkomulagið, félagsgjöldin, hina félagana, flugvélarnar og aðstöðuna sem boðið er uppá.
- Bættu við næturflugsréttindum
Kannaðu hve mikið mál það er að bæta réttindum til sjónflugs að nóttu til í skírteinið. Það eykur kannski ekki neitt svakalega við möguleikana, en þú ert þó ekki lengur eins háður skilgreindum mörkum dags og nætur. Þess utan er borgin og næsta nágrenni ægifögur í ljósaskiptunum ...
- Bættu við blindflugsréttindum
Ef þú sérð fram á það að hafa tíma og pening til að bæta þessum réttindum við, þá getur það vel verið þess virði. Hafa ber þó í huga að hér á landi eru menn æði fljótt komnir upp í hugsanlega ísingu, jafnvel að sumarlagi, og fæstar einkaflugvélar ráða við slíkar aðstæður. Svo er líka spurning hve oft þú ert í raun "grándaður" úti á landi en hefðir getað lagt í'ann með IFR áritun upp á vasann. Kannski dugir sjónflugið eingöngu þér ágætlega, þegar allt kemur til alls. En í það minnsta verður þú betri flugmaður með slík réttindi, sem leggur meiri áherslu á nákvæm vinnubrögð í "hanapyttinum".
- Skelltu þér í ferð til útlanda
Fyrir slíka ferð þarftu að hafa tiltekin réttindi og afla nauðsynlegra leyfa. Búnaður í för er líka meiri en í innanlandsflugi, t.d. björgunarbátur, flotgalli, feitur nestispakki og pissuflaska. Kynntu þér vel leiðina sem fljúga skal og veðrið sem ríkir á þessum slóðum. Reiknaðu út eldsneytisþörfina, vendipúnktinn ("point-of-no-return"), finndu út hvar eldsneyti er fáanlegt og hvaða varavelli er hægt að notast við. Gott er að ræða við einhvern sem hefur prófað þetta sjálfur, því hann getur örugglega bent þér á margt sem huga þarf að í slíkri ferð. Þeir sem reynt hafa, segja þetta engu líkt! Það er mun ánægjulegra að lenda sem flugstjóri á Piper Cherokee í Glasgow, en sem farþegi á Boeing 757 á sama stað. Sem flugstjóri brosir þú allan hringinn!
- Komdu þér upp góðum flughermi
Að vísu þarftu ekki A-próf til þess, en það er samt góð leið til að halda sér í þjálfun á dimmum vetrarkvöldum, þegar úti blása naprir vindar. Viðbætur eins og Ísland 2000 frá www.icesim.com eru ómissandi, auk flugvéla og landslags í öðrum heimshlutum. Til að hafa þetta sem raunverulegast, skaltu skella þér á flugstýri, pedala, stóran skjá, gott skjákort og stóra hátalara. Síðan gerir þú flugáætlun, framkvæmdir sérhæfða fyrirflugskoðun (all peripherals connected, mouse active, screen adjusted, flight controls free) og ferð svo eftir gaumlistanum (power on, Windows up and running, area clear ... start FS2000) og flýgur á vit ævintýranna. Ef þú verður of einmana við þessar iðkanir, þá er ráð að skrá sig í Netflugskólann sem býður upp á flugkennslu og flugumferðarstjórn í sýndarheimum.
- Fleiri liðir eru væntanlegir ... sérstaklega þegar ég verð kominn með réttindin sjálfur!
En á meðan þú bíður eftir því, skaltu kynna þér bókina 101 Things to do with Your Private License. Og síðast en ekki síst, ef þú veist um fleiri atriði sem hér eiga heima, hafðu þá samband!
Ingólfur Helgi Tryggvason
Flugnemi með flugdellu á alvarlegu stigi!