178 sekúndur
  

Þessi pistill fjallar um hættuna sem flugmönnum stafar af því að fljúga inn í ský án þess að hafa fengið viðeigandi þjálfun í blindflugi. Löngunin til að komast á leiðarenda eða þrýstingur frá öðrum réttlætir ekki áhættuna sem í því felst. Það er betra að snúa strax við eða einfaldlega fresta för, heldur en að lenda í "súpunni".


Hversu lengi getur flugmaður sem hefur fengið litla sem enga þjálfun í blindflugi, ætlast til að lifa eftir að hann flýgur inn í svo slæmt skyggni að hann missir allar viðmiðanir við jörðu?

Rannsóknarmenn við háskólann í Illinois í Bandaríkjunum gerðu próf á mönnum í flugnámi og komust að mjög athyglisverðri niðurstöðu. Tuttugu nemendur voru fengnir til að fljúga í flughermi við IFR skilyrði. Enginn þeirra komst "á lífi" út úr tilrauninni. Allir lentu í ofrisi, spuna eða komu niður úr skýjunum á hvolfi. Það eina sem var mismunandi við útkomuna, var tíminn sem tók þar til vélin hrapaði. Það liðu allt frá 480 sekúndum, niður í 20 sekúndur. Meðaltíminn var 178 sekúndur.

Hér er dæmi sem enginn vill lenda í ...

Það er alskýjað og skyggnið er frekar lélegt. 10 km skyggnið sem var gefið upp í ATIS er orðið svona meira eins og 5 km, og þú getur ekki alveg greint skýjahæðina. Hæðarmælirinn þinn segir þér að þú sért í 1500 fetum en kortið segir að hæð umhverfisins í kring nái alveg upp í 1200 fet. Samkvæmt kortinu gæti verið hindrun hérna rétt framundan en þú veist ekki alveg hvað þú ert kominn langt af leið. En þú hefur flogið í verra veðri en þetta, svo þú heldur áfram.

Þú stendur sjálfan þig að því að vera farinn að toga aðeins í stýrin til þess að skríða yfir hindranirnar fyrir neðan þig, sem eru orðnar ískyggilega nálægt. Þú ert orðinn þreyttur í augunum á því að reyna að horfa í gegnum þokuna til að sjá hvort það fari ekki að létta til. Þú finnur að þú ert aðeins farinn að svitna á enninu og hendurnar eru orðnar svo sveittar að stýrið er næstum því orðið sleipt. Nú rennur það upp fyrir þér að þú hefðir kannski átt að bíða eftir betra veðri. Þér lá á að komast á áfangastað, en kannski ekki svona mikið. Innst inni hugsar þú með þér "Ég klúðraði þessu núna — þetta er búið!" Þú ert sérð ekki neitt.

Nú áttu 178 sekúndur eftir ólifaðar ...

Þér finnst flugvélin vera á réttum kili en samt snýst kompásinn hægt. Þú stígur smá rudder á móti og beitir hallastýrunum aðeins til að leiðrétta beygjuna, en nú fyrst finnst þér flugvélin vera að halla, svo þú færir stýrin aftur í upphaflega stöðu. Þetta er skárra, en núna er kompásinn farinn að snúast aðeins hraðar og flughraðinn er farinn að aukast örlítið. Þú rennir augunum yfir mælitækin til aðstoðar en það sem þú sérð virðist dálítið ókunnugt. Þú ert viss um að þetta er bara slæmur blettur, það rofar til eftir nokkrar mínútur (en þú átt ekki nokkrar mínútur eftir ...)

Nú áttu 100 sekúndur eftir ólifaðar ...

Þú lítur á hæðarmælinn og þér bregður við að sjá hann skrúfast niður. Þú ert kominn í 1200 fet en þegar þú leist á hann rétt áðan stóð hann í 1500 fetum. Fyrstu viðbrögð þín eru að toga í hæðarstýrin, en hæðarmælirinn sýnir ennþá að þú sért að lækka þig ... hratt. Snúningshraðamælirinn er kominn á rauða strikið, og hraðamælirinn næstum því kominn að sínu rauða striki.

Nú áttu 45 sekúndur eftir ólifaðar ...

Nú ertu farinn að skjálfa aðeins og finnur svitann renna niður ennið. Það hlýtur eitthvað að vera að mælunum; að toga í stýrin fær hraðamælinn bara til að sýna meiri hraða. Þú ert farinn að heyra vindinn berja á móti flugvélinni.

Þú ert að fara hitta skapara þinn; nú áttu aðeins 10 sekúndur ólifaðar ...

Allt í einu sérðu jörðina koma þjótandi upp á móti þér. Þú sérð sjóndeildarhringinn ef þú snýrð höfðinu nógu langt, en frá mjög óvenjulegu sjónarhorni — þú ert næstum því á hvolfi. Þú öskrar og reynir að rífa í stýrin en ...

... tíminn er útrunninn!

Hugsaðu um þetta áður en þú flýgur næst í tvísýnu veðri.

 

Guðmundur T. Sigurðsson þýddi og endursagði




 © 2001, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn