Keppt í flugrallý og lendingum
Efnisyfirlit:
Flugrallý og lendingarkeppnir um helgina
Íslandsmeistaramótið í vélflugi verður haldið á Selfossi laugardaginn 30. ágúst.
Upphaflega stóð til að halda mótið laugardaginn 23. ágúst, en ákveðið var að fresta
því vegna veðurs og gera þar með flugdaginn á Selfossi enn glæsilegri.
Íslandsmeistaramótið er í tveimur hlutum, flugrallý og lendingarkeppni.
Flugrallý er eitt af því skemmtilegasta sem einkaflugmaður getur gert,
og byggist upp á að fljúga fyrirfram ákveðna leið af mikilli nákvæmni og finna
kennileiti á leiðinni. Búist er við að minnst 10 lið keppi, en hver flugmaður má hafa
með sér aðstoðarmann, eins og í bílarallý. Baráttan stendur um sekúndur til eða frá,
og hve nákvæmlega menn virða keppnisreglur. Því má búast við æsispennandi keppni.
Kynningarfundur fyrir flugrallýið verður haldinn
í FÍE-heimilinu í kvöld, 29. ágúst kl. 20:00.
Laugardaginn 30. ágúst verður mikið um að vera á Selfossflugvelli.
Haldið verður upp á vígsluafmæli flugvallarins og keppt verður um Pétursbikarinn í
lendingarkeppni. Von er á þristinum í heimsókn, og margt verður til gamans gert.
Norðlendingar ætla líka að þjálfa sig í vélflugi, því á laugardaginn kl. 13:00
fer fram á Melgerðismelaflugvelli hin árlega lendingakeppni Flugskóla Akureyrar.
Keppt er um F.N.-bikarinn en aukaverðlaun, fimm flugstundir, eru veitt fyrir
bestan árangur í Tomahawk flokki.
Sjá frétt á vef félagsins.
Veðurspáin fyrir helgina er nokkuð góð, svo nú er bara að taka saman til græjurnar
og skella sér á Selfoss eða Melgerðismela.
Aukin umsvif hjá Bláfugli

Bláfugl, sem hefur starfrækt tvær fraktflugvélar undanfarin tvö og hálft ár,
hefur nú tekið tvær aðrar Boeing 737-300 fraktvélar á leigu.
Verkefni félagsins eru mest fyrir hraðsendingarfyrirtæki í Evrópu og flýgur það einkum
milli Íslands, Þýskalands og Bretlands.
Þórarinn Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins, segir reksturinn ganga vel og ætlunin
sé að fjölga um enn eina vél á næsta ári, svo alls verða þá 5 vélar í flotanum.
Boeing 737-300 vélarnar bera 18 tonn í hverri ferð. Flugmenn félagsins geta flogið við
verstu veðurskilyrði (Cat IIIA) og getur félagið flutt ýmiss konar varning sem er viðkvæmur
fyrir hitabreytingum, auk hættuvarnings og dýra á fæti.
Bláfugl er með aðsetur í Keflavík og flýgur alla virka daga til Evrópu. Hjá félaginu
vinna nú um 30 manns, þar af 17 flugmenn.
Nánari upplýsingar um félagið má finna á vef þess, www.blafugl.is.
Mikið um dýrðir hjá flugmódelmönnum

Stóri flugmódeldagurinn var haldinn á Hamranesi laugardaginn 16. ágúst sl.
Veður var ekki vænlegt að morgni, en úr rættist þegar leið á daginn.
Guðmundur B. Ívarsson sýndi listflug með tilþrifum og gestirnir Steve Holland
og Richard Rawle flugu módelum af D.H. Comet, Zlin og Spitfire.
Undir herlegheitunum var leikin viðeigandi tónlist frá stríðsárunum meðan Pétur Hjálmarsson,
formaður Flugmódelfélagsins Þyts, lýsti fluginu.
Daginn eftir mættu módelmenn í Mosfellssveitina og áttu lokadaga með Steve og Richard.
Þar var fyrsta flug módela af Douglas DC-3 og Mustang, auk hraðamælitilrauna með GPS í þotu,
sem mældist á 304 km/klst (164 hnútum) í láréttu flugi!
Heimsókn þessara erlendu gesta er eitt mesta framtak sem sem Flugmódelfélagið Þytur
hefur staðið fyrir undanfarin ár.
Meira um þessar uppákomur á fréttasíðu Þyts.
Júmbó nauðlendir í Keflavík
Boeing 747-400 flugvél frá Air Canada, með 282 menn innanborðs,
lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir kl. 17:00 þann 18. ágúst.
Skeyti barst frá flugvélinni kl. 15.30 þar sem tilkynnt var um reyk í farþegarými
og lýst yfir neyðarástandi.
Almannavarnir, Landhelgisgæsla og fleiri aðilar voru boðaðir út samkvæmt neyðaráætlun.
Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út,
alls um 150 manns úr 11 sveitum.
Þegar flugmenn tilkynntu um neyðarástand um borð var flugvélin stödd um 570 sjómílur
suðvestur af Keflavíkurflugvelli. Flugvélin var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi
til Toronto í Kanada. 269 farþegar og 13 manna áhöfn eru um borð.
Í ljós kom að reykurinn stafaði frá viftu í loftræstikerfi sem hafði ofhitnað.
RUV greindi frá.
Þúsundir gesta á flughátíð Flugfélagsins
Flughátíð Flugfélags Íslands, Flugleiða og Icelandair var haldin á Reykjavíkurflugvelli 16. ágúst sl.
Var hún hluti af hátíðahöldum í Reykjavík á Menningarnótt, þó svo hún hafi verið haldin um hábjartan dag.
Mikill fjöldi gesta, að líkindum hátt í 10 þúsund, lagði leið sína út á Reykjavíkurflugvöll
en hátíðahöldin fóru fram við skýli 4.
Veðrið var ekki upp á það besta, skúrir og súld, en sýnendur og gestir létu það
ekki á sig fá. Ómar Ragnarsson, flugkappi með meiru, lýsti sýningaratriðum af alkunnri snilld.
Til sýnis voru fjölmargar flugvélar, þar á meðal þristurinn Páll Sveinsson
TF-NPK,
þyrlur og Fokker Landhelgisgæslunnar og margar einkaflugvélar.
Svifflug, listflug, hægflug, þotuflug, samflug, STOL-flug, gæsaflug, fallhlífastökk,
bíósýning og fleira gladdi gestina, svo ekki sé minnst á góðgæti og pylsur sem menn
sporðrenndu með bros á vör. Flugvirkjafélagið, Flugbjörgunarsveitin, Flugfreyjufélagið,
Geirfugl og Flugskóli Íslands voru auk þess með kynningu á sinni starfssemi.
Er það mál manna að vel hafi til tekist og eiga aðstandendur hrós skilið fyrir frábært framtak.
Góðir gestir í heimsókn
Diamond mótorsviffluga lenti í Reykjavík 5. ágúst sl.
Hún kom frá Sviss lengri leiðina, og var búin að fljúga í gegn um Evrópu, Miðausturlönd,
Asíu, Rússland, Bandaríkin, Kanada og Grænland og hefur nú lokið hringferð sinni í kring um jörðina.
Um borð voru 2 flugmenn, þau Danielle Rentsch og Philipp Sturm og náðu þau takmarki sínu,
að vera fyrst til að fljúga í kringum jörðina á mótorsvifflugu.
Þau dvöldu hér á landi í nokkra daga og héldu síðan heim á leið.
Ferðinni lauk síðan 12. ágúst í Buochs í Sviss, en hún var m.a. farin til
að minnast 100 ára afmælis vélflugsins.
Nánari upplýsingar á vef hnattflugsins, www.the-flight.com.
Vel heppnuð flughátíð í Múlakoti

Flughátíð Flugmálafélagsins í Múlakoti stóð yfir dagana 1.-4. ágúst. Að líkindum er þetta fjölmennasta hátíðin sem haldin hefur verið frá upphafi og talið að um 500 manns og 50 flugvélar hafi verið á svæðinu þegar mest var. Veðrið lék við þátttakendur með suðvestan golu og léttskýjuðum himni, að undanskildum skúrum eftir hádegi á laugardag. Því var mikið flogið, svifið og stokkið, en líka spjallað, grillað, drukkið (í hófi eins og flugmönnum sæmir) og sungið fram á nótt.
Lendingarkeppni var haldin á laugardeginum, og varð Valur Stefánsson í fyrsta sæti á
TF-STR.
Jóhann Gunnarsson á
TF-BAA
annar og Vilbergur Sverrisson á
TF-TBX þriðji.
Þeir taka hér við verðlaunum, nema hvað Evert Jensson var fulltrúi Vilbergs við
það tækifæri, því hann var fljúgandi þegar afhendingin fór fram.
Börnin fengu líka sinn skammt af flugi, því flognar voru margar ferðir yfir Þórsmörk,
til Vestmannaeyja og um allt Suðurlandið. Auk þess kepptu börnin til verðlauna
í stultugöngu, frisby-flugi og pokahlaupi á mánudaginn. Var þar mikill hamagangur og gleðin við völd.
Hér má sjá sigurvegarana og þátttakendur í stultugöngunni, með verðlaunapeninga og Sprite í hendi.
Þóroddur Sverrisson og Gunnar Þorsteinsson hjá Flugmálafélaginu báru hitann og
þungann af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar, og eiga ríkulega þakkir skildar
fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Ýmis fyrirtæki styrktu hátíðina, og má þar
nefna Flugfélagið Atlanta, Vífilfell og Flugmálastjórn.
Árni í Múlakoti var að sjálfsögðu líka mættur og taldi fjölda lendinga eins og hans er vani.
Nauðlending við Stíflisdalsvatn
Einkaflugvél nauðlenti við Stíflisdalsvatn mánudagskvöldið 4. ágúst.
Þrír voru um borð, flugmaður og tveir farþegar. Vélin er eins hreyfils, af gerðinni Cessna 180.
Vélin fór frá Reykjavíkurflugvelli og flaug upp í Efstadal þar sem tveir farþegar
komu um borð. Um kl. 21:15 tilkynnti flugmaðurinn að hann hefði misst afl á hreyflinum
og myndi reyna nauðlendingu. Lögregla og slökkvilið voru þá kölluð út, en skömmu
síðar tilkynnti flugmaðurinn að lendingin hefði tekist og sneri liðið þá við.
Flugmaðurinn kom hreyflinum aftur í gang og flaug vélinni áleiðis að Tungubökkum
í Mosfellsbæ, þar sem hann lenti henni heilu og höldnu.
RUV greindi frá.
Athyglisverð vefsíða um flug
Vefsíðan sem við mælum með í þessu tölublaði Flugfrétta, er nýr og endurbættur vefur Flugmálastjórnar,
www.caa.is.
Vefurinn er aðgengilegri en áður, inniheldur ferskar upplýsingar
auk eyðublaða og ýmiss konar greina og fróðleiks. Til hamingju með vefinn, Flugmálastjórn (og sérstaklega vefararnir)!
Aðrar flugfréttir
Hér eru nokkrir tenglar á ýmsar aðrar flugfréttir, en það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum:
Fisflug.is: Íslandsmót í Svifvængjaflugi 2003
FMS: Nýtt flugráð kemur saman til fyrsta fundar
FMS: Samningur undirritaður um endurbætur á Grímseyjarflugvelli
RUV: Sjúkraflug á Vestfjörðum og á Suðurlandi á ábyrgð Íslandsflugs
RUV: Flugatvik við Ísland rannsakað
RUV: Grænlandsflug flýgur áfram
RUV: Landhelgisgæslan tilbúin að sinna sjúkraflugi á Vestfjörðum
Slasaður sjómaður um borð í Sindra SF-26 sóttur með þyrlu
Athugið að hægt er að smella á flestar myndanna til að skoða þær í betri upplausn.
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir! Ef margir sýna þessu fréttariti áhuga, er hægt að vanda gerð þess enn meir og gefa
það oftar út.
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl
hafa nú lesið þetta skeyti skv. www.digits.com vefmælingu.