Færeyskir dagar og fluglistir
Efnisyfirlit:
Hópflug á Færeyska daga á Snæfellsnesi 5. júlí
Flugmálafélagið stendur fyrir hópflugi og ýmsum spennandi flugatriðum á Færeyskum dögum,
sem haldnir verða 4.-6. júlí n.k.
Flogið verður fylkingarflug frá Reykjavík laugardaginn 5. júlí kl. 11:00,
yfir Akranes, Borgarnes, Stykkishólm, Grundarfjörð og lent á Rifi kl. 12:15.
Ýmis skemmtun er í boði og kjörið að kynna grasrótina í fluginu.
Fólk fær tækifæri til að fara í kynnisflug, sjá listflug og fylgjast með æsispennandi hundaslag í háloftunum.
Flugsveitarforingi verður Björn Thoroddsen, listflugskappi og fyrrv. flugstjóri;
flugkynnir verður Gunnar Þorsteinsson, starfsmaður Flugmálafélags Íslands,
og gestgjafinn fyrir vestan verður Sævar Þórjónsson, flugmaður og málarameistari í Ólafsvík.
Skráning fyrir hópflugið er á vef Geirfugls,
www.geirfugl.is.
Þú finnur meira um þessa skemmtilegu uppákomu í
dagskrárkynningu og
nánari kynningu (PDF-skjöl, hvort um sig um 800 kb).
Notum þetta tækifæri til að minna almenning á að ennþá er líf í grasrót
flugsins með fjöldaþátttöku í hópfluginu yfir þéttbýlisstaðina á flugleiðinni.
Kynnumst um leið landinu okkar undir leiðsögn staðkunnra heimamanna og tökum nokkur dansspor með Færeyingunum!
Stóri-flugmódeldagurinn 6. júlí
Flugmódelklúbburinn Þytur heldur viðamikla flugmódelhátíð n.k. sunnudag 6. júlí á Hamranesflugvelli
við Hafnarfjörð. Allir eru velkomnir og frítt inn á svæðið.
Flugmódel.com
verða með sölubílinn á sýningarsvæðinu og gestaflugmenn eru væntanlegir
frá öllum landshornum. Sýndar verða þyrlur, svifflugur, stríðsflugvélar, kennsluvélar
ásamt listflugi og Piper Cub sýningu. Sem sagt, mikið um dýrðir og módel allt að 1/3 af raunverulegri stærð.
Nánar á vef fréttasíðu Þyts.
Litháísk flugvél í vandræðum í aðflugi
Tveggja hreyfla litháísk Twin Comanche flugvél í ferjuflugi frá Noregi,
lenti í erfiðleikum 29. júní sl. við aðflug að braut 19 í Reykjavík.
Var vélin nokkru austar en til stóð og kom niður úr skýjunum í 200-300 feta hæð yfir Þingholtunum.
Flugumferðarstjórinn skipaði flugmönnum vélarinnar að sveigja til vesturs og fljúga biðflug yfir
Seltjarnarnesi, en þeir sveigðu þess í stað til austurs. Allt fór þó vel að lokum og lenti vélin kl. 19:32.
Flugmálastjórn Íslands kyrrsetti flugvélina í nokkra daga vegna rannsóknar málsins, sem er skilgreint sem alvarlegt flugatvik.
Rannsóknarnefnd flugslysa var ekki tilkynnt símleiðis um atvikið, heldur í tölvupósti,
og hefur Flugmálastjóri áréttað við flugstjórn að öll atvik verði tilkynnt símleiðis til RNF sem fyrst.
Nánar um málið á vefum
mbl.is og
ruv.is.
Fyrri hluta Íslandsmóts í listflugi lokið
Fyrri hluti Íslandsmóts í listflugi var haldinn í tengslum við flughelgina á Akureyri helgina 21. og 22. júní.
Alls kepptu 6 listflugkappar á 3 flugvélum. Ingólfur Jónsson á
TF-TOY sigraði með 8022 stig og Helgi Kristjánsson, Íslandsmeistari,
var í öðru sæti á
TF-CCB
með 7.868 stig. Seinni hlutinn verður haldinn í haust og er það samanlagður árangur sem ræður endanlegum úrslitum í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
Á myndinni má sjá sigurvegarann við fákinn sinn.
Undir lok flughelgarinnar á sunndag var nýstárlegt atriði á dagskrá, þegar Yak-vélarnar
TF-BCX
og
TF-CCB
þeyttust um himinhvolfið í tilþrifamiklum eltingarleik með viðeigandi vélardrunum.
Nánar um úrslit keppninnar á vef VFA.
Vel heppnuð flughelgi á Akureyri

Flugsafnið á Akureyri stóð fyrir flughelgi 21. og 22. júní.
Á dagskrá var fyrri hluti Íslandsmeistaramóts í listflugi, svifflug, fallhlífastökk, módelflug,
svifvængjaflug og forngripaflug. Auk keppenda í listfluginu tóku gömlu garparnir Arngrímur B. Jóhannson
og Kristján Norðdal nokkrar "rispur" sem vöktu mikla aðdáun áhorfenda.
Gamli Beechcraftinn
TF-JFA var ræstur með miklum reykjarmekki og síðan
flaug Jóhannes Fossdal henni yfir mannskapinn með tilþrifum. Vélin er smíðuð 1953 og því
fimmtug á þessu ári. Var það vel við hæfi að viðra hana með þessum hætti.
Safnið sjálft var opið og boðið upp á vöfflur með kaffinu.
Fjöldi gesta kom frá öðrum landshlutum og voru 36 flugvélar á svæðinu þegar
flest var og má gera ráð fyrir að hátt í 500 manns hafi mætt á svæðið.
Veðrið var með besta móti, norðan hafgola og léttskýjað.
Ítarlegri fregnir af flughelginni og fleiri myndir má finna á vefum
Vélflugfélags Akureyrar og
Svifflugfélags Akureyrar.
Ný Boeing 767 breiðþota bætist í íslenska flugflotann
Fyrsta Boeing 767-300ER breiðþota Loftleiða Icelandic, dótturfyrirtækis Flugleiða,
kom til landsins um miðjan júní. Þetta er fyrsta breiðþota í flugflota Flugleiðasamsteypunnar
síðan félagið rak þotu af gerðinni DC-10 í lok áttunda áratugarins.
Vélin mun taka 247 farþega en tæknilega eru Boeing 767 mjög líkar þeim fjórum Boeing 757-þotum
sem Loftleiðir Icelandic hefur til umráða um þessar mundir og falla því vel að öðrum flugrekstri
Icelandair sem annast flugrekstur Loftleiða Icelandic líkt og allan annan flugrekstur innan
Flugleiðasamsteypunnar. Breiðþotan verður fyrst í stað nýtt í verkefni fyrir portúgalska
flugfélagið Yes, auk þess sem vélin verður notuð í beint flug milli Japans og Íslands í haust.
Sjá nánar frétt á Mbl.is
Athyglisverð vefsíða um flug
Vefsíðan sem við mælum með í þessu tölublaði Flugfrétta, er vefur Vélflugfélags Akureyrar,
velflugfelag.akureyrar.net.
Síðan er full af fróðleik og fréttum, og það sem er mest um vert, hún er uppfærð reglulega.
Til hamingju Norðlendingar með flottan vef!
Aðrar flugfréttir
Það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á hinum ýmsu vefum:
LHG:
TF-SIF sótti slasaðan dreng í Reykjadal
LHG:
Fluttur með þyrlu eftir vinnuslys í Ólafsvík
VFA:
Skemmtileg flughelgi haldin í einmuna veðurblíðu
FMS:
Ný flugslysaáætlun fyrir Vestmannaeyjar
FMS:
Nýr aðflugsstefnusendir keyptur fyrir Reykjavíkurflugvöll
FMS:
Ný heimasíða hjá Flugmálastjórn Íslands
Athugið að hægt er að smella á flestar myndanna til að skoða þær í betri upplausn.
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir! Ef margir sýna þessu fréttariti áhuga, er
hægt að halda því gangandi, jafnvel án auglýsingatekna ... eða þannig.
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl
hafa nú lesið þetta skeyti skv. www.digits.com vefmælingu.