Flugfréttir - 8. tbl. - 19.6.2003
Hópflug og flugdagar um helgina
Efnisyfirlit:
Flugstemming á Akureyri um helgina
Núna um helgina, 21. og 22. júní standa Flugsafnið og flugmálafélög á Akureyri fyrir spennandi flughelgi,
sem höfðar til allra flugáhugamanna.
Dagskráin hefst kl. 09:30 á laugardaginn með ræðuhöldum og Íslandsmóti í listflugi. Síðan rekur
hvert sýningaratriðið annað, eins og fram kemur í dagskrá flughelgarinnar.
Safnið sjálft verður að sjálfsögðu opið báða dagana
og eru veitingar seldar þar við vægu verði. Fjöldi gesta verður á svæðinu, því
Jónsmessuflug FÍE verður á sama tíma og munu því margir flugkappar mæta frá öðrum landshlutum
til að samgleðjast norðlendingum. Drífum okkur norður, með myndavélina og góða skapið!
Flugsafninu vex stöðugt fiskur um hrygg og á í vændum að fá Boeing 747 risaþotu að gjöf frá Atlanta,
ef nægur stuðningur fæst frá velunnurum safnsins. Þotan yrði í senn sýningargripur, skrifstofa,
sýningarsalur og veitingasalur. Nauðsynlegt verður að styrkja akbrautir og hlað fyrir komu þotunnar,
sem vegur rúm 100 tonn, en áætlað er að þær framkvæmdir kosti um 6 milljónir króna.
Jónsmessuflug FÍE til Akureyrar
FÍE stendur fyrir Jónsmessuflugi 21. júní nk.
Flogið verður á Melgerðismela í Eyjafirði. Samráðsfundur verður í Félagsheimili FÍE kl. 10:05 og lagt af
stað frá Reykjavík um kl. 11:00. Eins og fram hefur komið, verður flughelgi á Akureyri um næstu helgi
og mikið um flugdýrðir. Um kvöldið standa Norðanmenn fyrir grillveislu við Hyrnuna, þar sem kostnaður
af veitingum pr. mann verður innan við 2.000 kr. Hægt er að gista í Hyrnunni á Melgerðismelum, en
nauðsynlegt að panta pláss tímanlega. Nánar um það í
Tilkynningum Flugheims.
Frá Melgerðismelum er hægt að fljúga í ýmsar áttir, allt eftir veðri og vindum, til dæmis til Kárahnjúka,
Grímseyjar og Mývatns. Tilkynnið þátttöku á heimasíðu Geirfugls.
Snorri B. Jónsson sigraði fyrri hluta Silfur-Jódelsins
Fyrri hluti Silfur-Jódel lendingarkeppninnar var haldinn á Tungubökkum á fimmtudaginn 12. júní sl.
eftir að hafa verið frestað oftar en einu sinni vegna óhagstæðs veðurs.
Alls tóku 21 flugmaður þátt í keppninni, sem reynir mikið á tilfinningu
og dómgreind.
Eins og oft áður voru Jodel flugvélarnar í fararbroddi í
þessari keppni, því Snorri B. Jónsson á
TF-ULV
sigraði með 34 refsistig, Jón Karl Snorrason á
TF-ULF
varð í öðru sæti og Maggnús Víkingur á
TF-REF
í því þriðja. Síðari hluti keppninnar verður haldinn í haust, en samanlagður árangur ræður úrslitum.
Ný Cessna 441 komin til landsins

Flugfélagið Ernir hefur fest kaup á nýrri Cessna 441 Conquest skrúfuþotu, sem kom til landsins 13. júní s.l.
Vélin tekur 9 farþega, er með jafnþrýsti- og afísingarbúnaði og vel búin tækjum. Hún mun bera einkennisstafina TF-ORF.
Félagið hyggst nota vélina í ýmiss konar leiguverkefni, einkum fyrir íslenska aðila, en kaupverð vélarinnar er rúmar 70 milljónir króna. Hörður Guðmundsson, flugstjóri og aðaleigandi félagsins, flaug vélinni frá Bandaríkjunum. Vélin er býsna hraðfleyg og sem dæmi um það er hún rétt um 25 mínútur að fljúga til Akureyrar.
Síminn hjá félaginu er 562-4200 og netfangið ernirair@mmedia.is.
Flugfélagið Ernir er Vestfirðingum að góðu kunnugt, en það stundaði áætlunar- og sjúkraflug í fjórðungnum í næstum þrjá áratugi. Jónas Jónasson skrifaði sögu félagsins í bókinni "Þá flugu Ernir: lítil ferðasaga að vestan" sem kom út hjá Skjaldborg 1997.
Dönsk skýrsla um flugatvik TF-JVG komin út
Út er komin hjá dönsku flugslysanefndinni, skýrsla um flugatvik
TF-JVG
1.8.2002 við Grænland, en vélin missti afl og hrapaði stjórnlaust úr 13.000 fetum í 3.000 fet,
eftir að hún lenti í mikilli ísingu.
Vélin er tveggja hreyfla af gerðinni Cessna 404, og var í leiguflugi frá Reykjavík til Nuuk í
Grænlandi með níu farþega og tvo flugmenn. Engan sakaði, en farþegar urðu æði hrelldir.
Skýrslan greinir frá ýmiss konar vanrækslu flugmanna við undirbúning flugsins og röng viðbrögð,
sem voru ekki í samræmi við neyðargátlista.
Sjá nánar frétt á mbl.is og skýrslu nefndarinnar.
Rannsóknarskýrsla um flugatvik TF-ULF komin út
RNF hefur sent frá sér skýrslu um flugatvik sem varð 21. júní 2002, þegar hluti loftskrúfu
TF-ULF brotnaði af á flugi við
Dagverðarnes í Dalasýslu. Flugmenn vélarinnar náðu að nauðlenda slysalaust, en litlu munaði þó
að hreyfillinn hefði rifnað af vélinni.
Við rannsóknina kom í ljós að málmþreyta undir yfirborði hafi valdið óhappinu, en einnig að hliðarskekkja við aflestur snúningshraða kunni að hafa þátt í því að hreyfillinn væri notaður á hraðasviði sem hentaði ekki fyrir þessa samsetningu hreyfils og loftskrúfu. Einnig kemur fram að loftskrúfan var lagfærð eftir óhapp 1996 án þess að það hafi verið nákvæmlega skráð í viðhaldsbækur.
Skýrsluna í heild má finna hér á vef RNF.
Flugöryggisfundur hjá Gæslunni
Fjölmennasti flugöryggisfundur fram að þessu, var haldinn í flugskýli Landhelgisgæslunnar,
fimmtudagskvöldið 5. júní 2003. Um 280 manns mættu til að hlýða á ávörp valinkunnra manna,
þar á meðal Hafstein Hafsteinsson, forstjóra Landhelgisgæslunnar og Arngrím B. Jóhannsson,
forseta Flugmálafélags Íslands og stjórnarformann Flugfélagsins Atlanta. Sigurður Ásgeirsson,
þyrluflugmaður, kynnti starfsemi flugsveitarinnar og var með
fróðlega kynningu á sögu þyrluflugs
hér á landi og almennt. Að auki útskýrði hann á skiljanlegan hátt grundvallaratriði flugeðlisfræðinnar
eins og hún "snýr" að þyrlum. Að lokum sýndi hann um 15 mínútna myndband sem sýndi þyrlusveitina
við æfingar og útköll.
Fundargestir gátu skoðað þyrlur og búnað sveitarinnar, og var boðið upp á kaffi, kleinur og vöfflur
sem að sjálfsögðu runnu ljúflega í mannskapinn. Að því loknu var sýnd heimildarmyndin
"How strong is the wind" sem fjallar um þrautseigju þeirra Wright-bræðra þegar þeir fundu
upp flugvélina forðum daga.
Á fundinum kom einnig fram að Flugmálafélagið hyggst halda kynningu á hinum ýmsu greinum
flugs í Smáralind, dagana 11.-13. júlí n.k. Þar verður stillt upp flugvélum, flugmódelum
og kynningarbásum svo gestir og gangandi heillist af heimi flugsins. Síðast en ekki síst,
er ætlun félagsins að stofna til hópferða á næstu mánuðum, fyrst á Oshkosh í sumar, síðan
á flugminjasafnið í Duxford í haust og að lokum til Kitty Hawk í Norður-Karólínu í desember 2003,
þegar minnst verður 100 ára afmælis vélflugs í heiminum.
Gunnar Þorsteinsson, forsprakki Flugmálafélagsins, bar hitann og þungann af undirbúningi og
stjórn fundarins og á hann hrós skilið fyrir dugnaðinn.
Athyglisverð vefsíða um flug
Framvegis munum við kynna eina athyglisverða vefsíðu um flug í hverju tölublaði. Ábendingar eru vel þegnar
í tölvupósti til ritstjorn@flugheimur.is.
Flugnám - langar þig?
er fyrsta vefsíðan sem nýtur þessa heiðurs. Greinin birtist á hugi.is og er eftir Kristófer nokkurn, sem við kunnum ekki frekari deili á.
Hún lýsir á athyglisverðan hátt hve dýrt og tímafrekt verk það er að öðlast atvinnuréttindi sem flugmaður
og hve erfitt er að fá vinnu að námi loknu.
Býsna dapurleg staða fyrir þá sem hafa áhuga á að leggja flug fyrir sig, en hafa ber í huga
að margir leggja stund á flugið vegna ánægjunnar og ferðamöguleikanna sem það skapar.
Aðrar flugfréttir
Það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á hinum ýmsu vefum:
VFA:
Vel heppnað útsýnisflug á 17. júní
Geirfugl:
Hópflug á Fagurhólsmýri
RUV:
Flugskóli Íslands fær hærri styrk
LHG:
Kona flutt með þyrlu til Reykjavíkur eftir bílveltu á Fróðárheiði
LHG:
Sjúkraflug TF-SIF vegna umferðarslyss á Arnarstapa
IE:
Áfram góð sætanýting hjá Iceland Express í maí
FÍ:
Sérflug á leik Íslands og Færeyja í Færeyjum 20. ágúst
Atlanta:
Flugfélagið Atlanta kaupir sex Boeing 747-200 flugvélar
FMS:
Forystufólk í flugöryggismálum í heiminum á ráðstefnu í Reykjavík
Athugið að hægt er að smella á flestar myndanna til að skoða þær í betri upplausn.
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!
Við viljum minna fyrirtæki á að þetta er kjörinn vettvangur til að kynna vöru og þjónustu, því af og
til bjóða Flugfréttir upp á sértilboð til lesenda sinna. Hafir þú eitthvað til sölu sem á erindi til flugáhugamanna,
t.d. myndavélar, kort, aukabúnað eða bækur, þá hafðu samband og
allir munu njóta góðs af. Nú fá um 220 valdir aðilar þetta skeyti, og má segja að þetta sé afskaplega áhugasamur markhópur!
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl
hafa nú lesið þetta skeyti skv. www.digits.com vefmælingu.