Flugfréttir - 7. tbl. - 5.6.2003

Flugöryggi og flugkomur efst á baugi

Efnisyfirlit:

Flugöryggisfundur og flugbíó í kvöld

TF-LÍF

Flugöryggisfundur, sem haldinn verður kl. 20:00 fimmtudagskvöldið 5. júní, verður að mestu helgaður leitar- og björgunarstarfi flugdeildar Landhelgisgæslunnar. Af því tilefni mun fundurinn fara fram í flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og verða ókeypis kaffiveitingar á boðstólum.

Flutt verða ávörp, fjallað um flugdeild Landhelgisgæslunnar í máli og myndum, sýnd myndskeið úr erfiðum flugferðum, auk þess sem kynnt verður umgengni við þyrlur á slysstað. Þá verður flugflotinn og annar tækjakostur á borð við nýja nætursjónauka, til sýnis.

Á fundinum verður einnig flugbíó í tilefni af 100 ára afmæli flugsins í heiminum. Sýnd verður verðlaunamynd um Wright-bræður sem fjallar um mikilvægasta tímabilið í lífi þeirra, árin 1899-1909. Þetta er talin vera bæði gleggsta og skýrasta heimildarmynd sem gerð hefur verið um þessa miklu brautryðjendur flugsins.

Nánari upplýsingar á Tilkynningasíðu Flugheims.


Lendingarkeppni og flugkoma um helgina

Frá keppninni í fyrra

Fyrri hluti Silfur-Jódel lendingarkeppninnar verður á Tungubökkum laugardaginn 7. júní eða næstu daga á eftir ef ekki viðrar til flugs. Öllum er velkomið að taka þátt. Áhugasamir hafi samband við Jón Sverri í síma 892-5672 eða Guðna í síma 897-7738. Keppendur mæti kl. 12:00 og keppnin hefst kl. 13:00, þátttökugjald er 1.000 kr. Kaffi og meðlæti og kökur á staðnum.

Tilgangurinn með keppni af þessu tagi er tvíþættur. Annars vegar að efla öryggi í einkaflugi og hins vegar að auka fjölbreytni í þessari grein flugsins. Frá flugöryggislegu sjónarmiði gefa svona keppnir flugmönnum kost á að reyna sig við að nauðlenda flugvél á þeim stað sem þeir myndu vilja lenda á, ef á þyrfti að halda í raunveruleikanum.

Norðanmenn eru líka í flugstuði um helgina og munu halda fjölskylduhátíð laugardaginn 7. júní kl. 13:00 á Melgerðismelum. Markmið hátíðarinnar er einfalt; að hittast og hafa gaman af. Hátíðin er með hinu hefðbundna og óformlega móti en ýmislegt verður þó á boðstólnum fyrir börn og fullorðna s.s. hið sígilda og óviðjafnanlega hveitipokakast, flugdrekakeppni (búa til flugdreka með það markmið að hann komist á loft) og útsýnisflug, svo ekki sé nú talað um grilleríið sem í boði er gegn vægu gjaldi (1.000 kr. pr fullorðinn, ókeypis fyrir börnin). Allir eru velkomnir og ekki hvað síst stjórnendur flugtækja af öllum gerðum og förunautar þeirra á hvaðanæfa að! Mætum á Melana með góða skapið! Nánar á vef Vélflugsfélags Akureyrar.


Fjölbreyttar flugkomur í sumar

Nú er komin nokkuð endanleg mynd á upplýsingar um Flugkomur 2003 og kennir þar margra grasa. Boðið er upp á fjögur hópflug, til Fagurhólsmýrar, Patreksfjarðar, Grímseyjar og Þórshafnar. Auk þess lendingarkeppnir, flugkomur með grillmat, Íslandsmeistarakeppni í svifdreka og svifvængjaflugi, flugrallý o.m.fl. Kynntu þér dagskrána, pússaðu flugvélina, taktu til myndavélina og skelltu þér í fjörið!

Umsjónarmenn flugklúbba og aðrir sem koma að dagskrárgerð fyrir slíkar flugkomur eru beðnir um að senda upplýsingar um viðburðinn eða leiðréttingar á netfangið ritstjorn@flugheimur.is um leið og línur skýrast.


Ný vélsviffluga tekin í notkun

Diamond Xrtreme HK 36 TTC

Svifflugfélagið hefur fest kaup á glæsilegri mótorsvifflugu af gerðinni Diamond Xtreme HK 36 TTC, sem ber einkennisstafina TF-SAA. Hún er smíðuð í Austurríki 1998. Vélin var keypt frá Bandaríkjunum og hefur aðeins verið flogið um 50 tíma. Vélin kostaði hingað komin um 9 milljónir.

Þetta flugtæki er í senn ágæt sviffluga og mjög góð vélfluga. Með því að drepa á mótornum er hægt að svífa vélinni eins og hverri annari svifflugu en með mótorinn á er hægt að fljúga henni á 200 km/klst hraða hvert á land sem er. Hún er knúin 115 hestafla Rotax fjórgengismótor með afgas túrbínu. Með þessum kaupum býður félagið upp á enn meiri breidd fyrir félaga, nemendur og gesti. Mikils er vænst af þessu tæki sem er hið glæsilegasta. Hún var flutt með Boeing 757 fragtflugvél Flugleiða frá New York til Keflavíkur. Flugvélin er tveggja sæta, með nefhjóli og getur m.a. dregið aðrar svifflugur í loftið, en slíkur búnaður verður settur í hana síðar. Vænghafið er 16,3 m, svifhorn 1:28 og fallhraði 1,15 m/sekúndu, flugtaksvegalengd 150 m yfir 50 feta hindrun og klifurhraði 1200 fet/mínútu. Kostnaður pr. flugtíma liggur á bilinu 2.000 til 9.000 kr. eftir því hvort þú ert félgasmaður eður ei og hve mikið þú notar mótorinn. Menn verða að hafa a.m.k. sóló í svifflugi til að fá tékk á hana. Sem sagt, býsna efnilegur gripur!

Nánari upplýsingar á vef Svifflugfélagsins og Diamond Air.


Varúðarlending á Bessastöðum

TF-VHH framkvæmdi varúðarlendingu á Bessastaðavegi á Álftanesi um kl. 21:00 þann 31. maí 2003. Rannsóknanefnd flugslysa rannsakar málið.

Flugvélin sem er eins hreyfils einkaflugvél af gerðinni Cessna A185F Skywagon, var á leið frá Patreksfirði til Reykjavíkur með flugmann og einn farþega. Þegar flugvélin var að nálgast Reykjavíkurflugvöll varð flugmaðurinn var við bilun í eldsneytisgjöf flugvélarinnar þannig að hann hafði litla stjórn á afli hreyfilsins. Hann ákvað því að framkvæma varúðarlendingu, fyrst á braut 01, en þegar ljóst var að það tækist ekki, varð heimreiðin á Bessastöðum fyrir valinu sem nauðlendingarstaður. Nauðsynlegt var að drepa á hreyflinum fyrir lendingu.

Lendingin tókst vel og urðu engin slys á fólki eða skemmdir á flugvélinni, enda vanir menn á ferð. Að lokinni vettvangsrannsókn RNF og viðgerð á flugvélinni var henni flogið til Reykjavíkur.
RNF og RUV greindu frá.


Bráðabirgðaskýrsla vegna flugslyss í Hvalfirði

TF-FTR (ljósmyndari Guðni Þorbergsson)

Rannsóknarnefnd flugslysa gaf í dag út áfangaskýrslu vegna rannsóknar á flugslysi TF-FTR í Hvalfirði, 28. mars s.l. Báðir flugmenn lifðu slysið af en slösuðust talsvert.

Skýrslan greinir frá þekktum staðreyndum í tengslum við slysið, aðdraganda þess og hvernig flugmennirnir króuðust af vegna myrkurs og éljagangs. Sjá nánar frétt á vef RNF.


Aðrar flugfréttir

Það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á hinum ýmsu vefum:

LHG: Slasaður skipverji um borð í þýska togaranum Kiel sóttur út á Reykjaneshrygg í nótt
Flugfélag Íslands: Ný dagsferð í Kárahnjúka
MBL: Flugslysanefnd kannar orsök flugslyssins í Stykkishólmi
MBL: Atlanta flytur höfuðstöðvar til Reykjavíkur
MBL: Air Atlanta fær flugrekstrarleyfi í Bretlandi
Geirfugl: Sýndarflug á vélum Geirfugls
FMS: Forystufólk í flugöryggismálum í heiminum á ráðstefnu í Reykjavík
FMS: Flugslysaæfing á Þórshöfn og Vopnafirði


Saxa

Sértilboð: Vaktforritið Vakta

Hugmót ehf býður vaktforritið Vöktu á sérstöku tilboði til áskrifenda Flugfrétta: 25% afsláttur frá listaverði.

Vakta fylgist með skrám sem uppfylla tiltekin skilyrði og vinnur úr þeim. Það hentar sérstaklega fyrir sjálfvirkt gagnaflæði milli ólíkra tölvukerfa, t.d. fyrir bókunarfærslur eða EDI-sendingar. Forritið flytur skrárnar í önnur söfn og/eða ræsir upp viðeigandi úrvinnsluforrit. Ókeypis sýniseintök eru takmörkuð við 3 virk vaktskilyrði, en skráð eintök hafa enga slíka takmörkun. Þú getur pantað skrásett eintak á vefnum. Þú þarft aðeins að skrá "Sértilboð Flugfrétta" í Athugasemdasvæðið, þegar þú pantar notendaleyfið.


Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/ og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!

Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!

Bestu kveðjur,

Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl

 

Þú skráðir þig á póstlista Flugheims undir netfanginu jon@jonsson.is
Ef þú vilt skrá þig af listanum, sendu okkur þá skeyti þar um, á: afskra@flugheimur.is