Flugfréttir - 5. tbl. - 28.11.2002
Flugöryggi í fyrirrúmi
Efnisyfirlit:
Flugöryggisfundur í kvöld
Fundur um flugöryggismál verður haldinn kl. 20:00 í kvöld í bíósal Hótels Loftleiða.
Að fundinum standa Flugmálafélag Íslands, Öryggisnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna,
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Flugmálastjórn Íslands. Eru allir flugmenn og
áhugamenn um bætt flugöryggi hvattir til að mæta.
Dagskrá fundarins verður sem hér segir:
- Kynning á nýrri Rannsóknarnefnd flugslysa - Flugóhöpp og flugatvik árisins
2002.
- Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri og Þorkell Ágústsson,
vararannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar flugslysa.
- Lærum af reynslu fortíðarinnar og þróun flugsögunnar.
- Rafn Jónsson, umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Flugsaga Íslands og
flugstjóri hjá Flugleiðum.
- Samskipti flugmanna og flugumferðarstjóra.
- Sigurleifur Kristjánsson, deildarstjóri verklagsstofu Flugmálastjórnar
Íslands.
- Myndbandasýning.
- Listflug Patty Wagstaff á Extra 300, m.a. stjórnklefamyndir á meðan
flugi stendur.
- Myndasyrpa frá Íslendingum á Oshkosh-flughátíðinni 2002.
Reykjavíkurflugvöllur vígður með pomp og prakt
Endurbyggður Reykjavíkurflugvöllur var tekinn formlega í notkun 1. nóv. síðastliðinn.
Í tilefni dagsins var boðið til móttöku með tilheyrandi ræðuhöldum, lúðrablæstri og
veitingum. Við lok athafnarinnar var Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra,
afhent um 9,6 hektara landsvæði sem fram til þessa hafði tilheyrt flugvallarsvæðinu.
Vegna veðurs var ekki unnt að halda listflugssýningu eins og til stóð,
en úr því rættist daginn eftir.
Þá flaug Patty Wagstaff á TF-TOY og fleiri með mikilum
tilþrifum yfir vellinum.
Nánari upplýsingar á fréttavef Flugmálastjórnar en þar má m.a. finna þær ræður sem fluttar voru.
Ný rannsóknarnefnd skipuð
Samgönguráðherra hefur nú skipað sérstaka rannsóknarnefnd til að fara yfir öll gögn vegna Skerjafjarðarslyssins og komast eins nálægt sannleikanum í málinu og hægt er. Nefndin er skipuð frá og með 5. nóvember 2002.
Nefndina skipa Sigurður Líndal, lagaprófessor, sem verður formaður nefndarinnar, Kjartan Norðdahl, flugstjóri og lögfræðingur, Birger Andreas Bull, ráðgjafi frá Noregi, Søren Flensted, eftirlitsmaður frá Danmörku og Ronald L. Schleede, ráðgjafi frá Bandaríkjunum.
Nánar um þetta á vef aðstendenda þeirra sem fórust í slysinu á www.flugslys.is.
Þumalputtareglur í flugi
Flugheimur hefur nú tekið saman síðu með ýmsum gagnlegum þumalputtareglum sem tengjast flugi.
Þar finnur þú ýmsar reglur sem tengjast siglingafræði, flugeðlisfræði, veðurfræði, flugmennsku og flugi almennt.
Tekið skal fram að þetta er fyrsta útgáfa síðunnar og allar tillögur sem til bóta geta verið,
eru meira en vel þegnar. Sendu okkur þína uppáhaldsreglu (og þær mega vera fleiri en ein) á netfangið
ritstjorn@flugheimur.is.
Hugsaðu vel um hreyfilinn
Fátt er mikilvægara en að hreyfillinn skili sínu meðan á flugi stendur. Rétt meðferð hreyfilsins er
því nauðsynleg og ekki síður að skynja og skilja framvindu mála.
Guðmundur T. Sigurðsson hefur
tekið saman fróðlegan pistil um þessi mál, sem þú finnur í heilræðasafni Flugheims.
Kortadiskur Landmælinganna býsna góður
Landmælingar Íslands kynntu á dögunum nýjan gagnvirkan
kortadisk fyrir PC-tölvur.
Við höfum nú prófað diskinn og líkar býsna vel. Hann gefur færi á að merkja inn staði, mæla fjarlægðir
o.fl. Það sem okkur þótti helst skorta er mæling á stefnum og notkun hnita á hefðbundnu formi (gráður, mínútur og sekúndur), en væntanlega stendur það til bóta.
Við hvetjum flugmenn til að kaupa eintak, bæði til að kynnast landinu enn betur og ekki síður til að styrkja gott framtak Landmælingamanna. Diskurinn kostar aðeins 2.980 kr. og er hægt að panta hann á vef LMÍ.
Nýtt Flugráð tekur til starfa
Samgönguráðherra hefur nú tekið af skarið og skipað nýtt Flugráð, frá og með 5. nóvember 2002.
Þar með er eytt þeirri óvissu sem ríkti vegna þess að formlegt umboð skorti fyrir suma sem þar sátu.
Flugráð skipa Hilmar B. Baldursson, flugstjóri, formaður, Óli Jón Gunnarsson, bæjarstjóri, varaformaður, Gunnar Hilmarsson, deildarstjóri, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri, Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri og Jens Bjarnason, flugrekstrarstjóri.
Varamenn í Flugráði eru Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður, Vigfús Vigfússon, umboðsmaður Íslandsflugs, Karvel Pálmason, fv. alþingismaður, Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri, Friðrik Adolfsson, deildarstjóri, og Hallgrímur Jónsson, flugstjóri.
Aðrar flugfréttir
Það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á mbl.is og ýmsum öðrum opinberum vefum:
FMS: Flugöryggissviðið flytur
FMS: Rannsókn leiðir í ljós að gagnaplata hreyfils TF-GTI var í samræmi við gerð hreyfilsins
RNF: TF-TOE hlekktist á í lendingu á flugvellinum á Sandskeiði
RNF: Árskýrsla fyrir 2001 komin út
LHG: Dómsmálaráðherra kynnir sér notkun nætursjónauka
LHG: Nætursjónaukar notaðir í fyrsta skipti við sjúkraflug Landhelgisgæslunnar
mbl.is: Helgi Kristjánsson sigurvegari í listflugi
mbl.is: Flug milli Bíldudals og Ísafjarðar hefst um mánaðamótin
flug.is: Braatens vill ráða íslenska flugvirkja
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl