Flugfréttir - 4. tbl. - 24.10.2002
Góðir gestir sækja okkur heim
Efnisyfirlit:
Listflugskonan Patty Wagstaff væntanleg í heimsókn

Hin heimsfræga listflugskona
Patty Wagstaff
frá Ameríku, Pekka Havbrandt svifflugmaður og listflugmaður frá Svíþjóð og Dennis Pagen svifdrekamaður frá Ameríku verða gestir Flugmálafélagsins um næstu mánaðamót. Ef veður leyfir munu þau sýna listir sýnar á Reykjavíkurflugvelli á laugardeginum 2. nóvember.
Um kvöldið heldur félagið svo árshátíð að Grand Hótel, en þar munu flugkapparnir halda ræður yfir veglegum kvöldverði. Síðan verða veitt ýmis verðlaun til sigurvegara flugkeppna í sumar og annarra sem skarað hafa framúr. Að lokum verður dansleikur fram á nótt við undirleik Leyniþjónustunnar. Miðaverð er kr. 4.900 og innifelur mat, skemmtun og dansleik.
Sjá nánar tilkynningar á vef Flugmálafélagsins.
Breytingar á Reykjavíkurflugvelli
Samkvæmt upplýsingum í AIP verða nýju akbrautirnar við norður-suður brautina á Reykjavíkurflugvelli teknar í notkun nú um mánaðamótin.
Auk þess hefur ljósabúnaður við völlinn verið endurbættur. Braut 13/31 verður einnig stytt úr 1457 metrum í 1230 metra, því tekið hefur verið af báðum endum fyrir öryggissvæði. Að líkindum er þetta gert til að bæta
öryggi í aðflugi vegna umferðar ökutækja við Suðurgötu og Hlíðarfót, nema ef vera skyldi að menn séu að undirbúa kosningar árið 2016 og skapa aukið rými fyrir íbúðahverfi ...
Þetta er eigi að síður til mikilla bóta og eykur afköst flugvallarins verulega, sérstaklega þegar braut 01/19 er í notkun.
Samgönguráðherra skipar nýja rannsóknarnefnd
Samgönguráðherra fór yfir skýrslu bresku flugslysasérfræðinganna Bernie Forward og Frank Taylor, og hefur nú ákveðið að tillögu Rannsóknarnefndar flugslysa að setja á stofn sérstaka
rannsóknarnefnd til að fara yfir rannsókn RNF á slysinu og upphaflega skýrslu hennar. Nefndin verður skipuð innlendum
og erlendum sérfræðingum.
Markmið hennar verður að leggja mat á niðurstöðu RNF, velta upp fleiri mögulegum ástæðum
slyssins og koma með viðbótarábendingar í öryggisátt ef þess gerist þörf. RNF mun víkja sæti í þessari nýju
rannsókn til að gæta fyllsta hlutleysis. RNF gerir þó ýmsar athugasemdir við skýrslu Bretanna,
sem þú getur lesið nánar um á vef RNF.
Atlanta stendur í stórræðum
Flugfélagið Atlanta stendur nú í stórræðum, því það
hyggst reisa nýtt húsnæði á 15.000 fermetra lóð, austan Vesturlandsvegar og norðan við Lágafell.
Fyrsti áfangi byggingarinnar verður 3.000 fermetrar á 1-2 hæðum og verður að líkindum tekinn í notkun
næsta sumar.
Auk þessa hefur Atlanta undirritað samning við Malaysia Airlines Systems (Cargo) í Malasíu um þjónustuleigu á þremur Boeing 747 sem staðsettar verða í Kuala Lumpur. Fyrsta vélin hóf flug fyrr í mánuðinum, önnur í byrjun nóvember og sú þriðja bætist við í byrjun mars 2003. Samningurinn er til tveggja ára með ákvæðum um möguleika á framlengingu. Andvirði samningsins er tæplega tíu milljarðar króna.
Vélarnar munu m.a. fljúga til Hollands, Þýskalands, Japans, Ástralíu, Hong Kong og Taiwan. Flugliðar frá Atlanta munu manna vélarnar og tæknimenn Atlanta ásamt öðru starfsliði sjá um viðhald og afgreiðslu. Að þessu verkefni munu koma tæplega eitt hundrað manns. Flugfélagið Atlanta leigir flugvélar af gerðunum Boeing 747 og Boeing 767 með áhöfnum til flugfélaga víða um heim. Nú eru tuttugu og ein breiðþota í verkefnum hjá félaginu.
Flugsöguþættirnir mælast vel fyrir
Þættirnir um Flugsögu Íslands sem sýndir hafa verið í Sjónvarpinu
undanfarna 3 sunnudaga, hafa notið mikilla vinsælda hjá flugáhugafólki.
Skemmtileg blanda af viðtölum og ýmiss konar myndefni sem við höfum ekki séð áður.
Þykir þó sumum að flugumferðarstjórar og einkaflugmenn fái full litla umfjöllun, rétt um 15 sekúndur ... en hvað um það! Höfundur og framleiðendur þáttarins eiga vissulega hrós skilið fyrir framtakið. Fjórði og síðasti þátturinn verður á dagsskrá n.k. sunnudag kl. 20:00.
Kortadiskur Landmælinganna hentar flugmönnum
Landmælingar Íslands kynntu á dögunum nýjan gagnvirkan
kortadisk fyrir PC-tölvur (hér á eftir eru feitletruð atriði sem koma flugmönnum helst að notum). Hann er með yfirlitskortum af landinu, sveitarfélagakortum, gróðurmynd og helstu sölukortum LMÍ á liðnum árum, ferðakorti 1:500.000 og aðalkortum 1:250.000. Á diskinum er skoðunarhugbúnaðurinn, VisIT 4.22, frá dönsku kortastofnuninni sem býður upp á fjölbreytta valkosti við skoðun kortanna. Aðalkortin eru níu talsins í prentaðri útgáfu en hefur á diskinum verið skeytt saman í eitt kort. Á diskinum er nafnaskrá frá ferðakortinu með yfir 3.000 staðsettum örnefnum þannig að auðvelt er að kalla fram á skjáinn viðkomandi staði á korti.
Meðal þeirra valkosta sem bjóðast við skoðun kortanna er mæling fjarlægða og flatarmáls, örnefnaleit og leit að hnitum í mörgum og mismunandi hnitakerfum. Hægt er að skoða kort í mismunandi mælikvörðum samtímis, afrita og skeyta inn í önnur forrit, bæta inn eigin texta og táknum og prenta út kort. Valmyndir hugbúnaðarins í þessari útgáfu eru á ensku en ítarlegar leiðbeiningar á íslensku fylgja í sérstakri handbók.
Hægt að tengja hugbúnaðinn við GPS tæki. Diskurinn kostar aðeins 2.980 kr. og er hægt að panta hann á vef LMÍ.
Við munum fjalla nánar um diskinn í næsta fréttabréfi,
eftir að hafa skoðað hann sjálfir.
Stofnunin hefur einnig gefið út kortadiskinn "Á flugi yfir Íslandi"
þar sem notendur geta virt fyrir sér þrívíddarlíkan af landinu frá ýmsum sjónarhornum.
Skerjafjarðarslysið enn til umfjöllunar
Aðstandendur fórnarlamba Skerjafjarðarslyssins hafa fengið þær upplýsingar frá kaupanda mótorsins,
að hann hafi verið úrbræddur og einskis nýtur. Í kjölfar þess hefur verið höfðað einkamál í Bandaríkjunum
gegn Ísleifi Ottesen og Þorleifi Júlíussyni, en fyrirtæki hans sá um standsetningu mótorsins og flugvélarinnar
þegar hún var keypt á sínum tíma. Nánar um þetta á vefnum www.flugslys.is.
Aðrar flugfréttir
Mikið hefur gengið á í flugheiminum undanfarnar vikur og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á mbl.is og vef Flugmálastjórnar:
FMS: Vatnavextir við Egilsstaðaflugvöll (flottar myndir)
FMS: Yfirlýsing flugmanna ICB-753 vegna flugslyssins í Skerjafirði
mbl.is: Flugleiðavél lenti í Baltimore vegna bilunar
mbl.is: Viðhaldsfyrirtæki sem keypti hreyfil TF-GTI fleygði honum
mbl.is: Ódýrustu fargjöldin á rúmar 14 þúsund kr.
mbl.is: Lægstu fargjöld Flugleiða lækka um tæpan þriðjung
Sértilboð: Orðaskiptingaforritið Saxa
Hugmót ehf býður orðaskiptingaforritið Söxu
á sérstöku tilboði til áskrifenda Flugfrétta: 25% afsláttur frá listaverði.
Ef þú gefur út mikinn texta og notar Word ritvinnsluna til að vinna hann, kemur Saxa að góðum notum.
Textinn sem þú sendir frá þér verður mun fallegri áferðar, því við umbrot flæðir hann mjúklega um síðuna jafnvel þótt þú breytir leturstærð, dálkvíddum eða skellir inn mynd.
Þar sem öll orðin eru með skiptitákni, veit umbrotsforritið nákvæmlega hvernig skipta má textanum.
Orðtakan í Söxu auðveldar líka próflestur og kemur í veg fyrir stafsetningarvillur.
Frágangur verður allur fagmannlegri, lesendur ánægðari og orðstírinn batnar.
Við þetta bætist gríðarlegur vinnusparnaður við handvirkar leiðréttingar á orðaskiptingum.
Nánari upplýsingar og ókeypis sýniseintak á Söxu vefnum.
Þú þarft aðeins að skrá "Sértilboð Flugfrétta" í Athugasemdasvæðið, þegar þú pantar notendaleyfið.
Mundu að þú getur smellt á flestar myndirnar í þessu fréttariti, til að skoða stærri útgáfu af þeim.
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl