Flugfréttir - 3. tbl. - 3.10.2002
Engin lognmolla í fluginu
Efnisyfirlit:
Skýrsla bresku sérfræðinganna veldur uppnámi
Skýrsla bresku flugslysasérfræðinganna Bernie Forward og Frank Taylor,
um flugslysið í Skerjafirði í ágúst 2000, sem birt var nýlega,
hefur valdið talsverðu uppnámi í íslenska flugheiminum.
Þar er m.a. bent á vafasama útgáfu lofthæfiskírteinis vélarinnar og
hve Rannsóknarnefnd flugslysa einblíndi á eldsneytisskort sem aðalástæðu
slyssins í stað þess að rannsaka betur aðra möguleika s.s. olíuleka og
hreyfilbilun. Jafnframt eru vinnubrögðin við rannsókn á hreyflinum gagnrýnd
og sú staðreynd að hann var afhentur flugrekanda aðeins nokkrum dögum
eftir slysið. Mikilvægasta sönnunargagnið í málinu er því ekki lengur til staðar.
Markmið skýrslunnar er eins og annarra slíkra skýrslna, fyrst og fremst
að draga sem mestan lærdóm af slysinu og stuðla að auknu flugöryggi.
Nánari upplýsingar finnið þið á vef Rannsóknanefndar flugslysa
og á vef aðstandenda þeirra sem fórust, www.flugslys.is.
Skýrslan sjálf er aðgengileg þar bæði á íslensku og ensku.
Samgönguráðherra fór yfir skýrslu Bretanna og hefur nú ákveðið að tillögu RNF að setja á stofn sérstaka
rannsóknarnefnd til að fara yfir rannsókn RNF á slysinu og skýrslu hennar. Nefndin verður skipuð innlendum
og erlendum sérfræðingum. Markmið hennar að leggja mat á niðurstöðu RNF, velta upp fleiri mögulegum ástæðum
slyssins og koma með viðbótarábendingar í öryggisátt ef þess gerist þörf. RNF mun víkja sæti í þessari nýju
rannsókn til að gæta fyllsta hlutleysis. RNF gerir þó ýmsar athugasemdir við skýrslu Bretanna,
sem þú getur lesið nánar um á vef RNF.
Cessna Citation einkaþotan mætt til leiks

Cessna Citation Excel þota frá Sundt Air
kom til landsins síðdegis á sunnudag, 29. september. Fengu flugmenn vélarinnar hátíðlegar móttökur
hjá starfsmönnum Maris, samstarfsaðila félagsins hér á landi.
Daginn eftir var vélin kynnt fyrir fréttamönnum og væntanlegum viðskiptavinum og
fóru þeir í kynningarflug til Akureyrar og Húsavíkur.
Myndirnar hér sýna hversu vel þotan er útbúin, bæði fyrir flugmenn og farþega. Lúxus-leðursæti, bar og salernisaðstaða ásamt góðri lofthæð, tryggja að vel fari um þá sem fljúga með þessum kostagripi.
Farþegarýmið er auk þess búið fullkomnum símabúnaði og nettengingu, svo halda megi fundi, senda fax og
tölvupóst meðan á fluginu stendur. Tónlistarkerfi, tvöfalt DVD og AirShow-kerfi og
hjálpa farþegum að njóta afþreyingar eftir krefjandi viðskiptafundi.
Björn Rúriksson, framkvæmdastjóri sést hér sýna gestum hversu vel
fer um viðskiptavinina. Fyrir nánari upplýsingar og bókun flugferða, hringið í síma 896-8600.
Sundt Air á að baki margra ára farsæla reynslu í flugrekstri og er eitt öflugasta fyrirtækið í leiguflugi á Norðurlöndum.
Félagið sér um þjónustu við norskt atvinnulíf, opinbera aðila og sinnir stórum hluta sjúkraflugs í Noregi, auk sjúkraflutninga milli Grænlands og Danmerkur.
Höfuðstöðvar þess eru á Gardermoen flugvelli við Osló. Félagið rekur nú þegar fimm sambærilegar eða stærri einkaþotur af Cessna Citation gerð.
Ætlunin er að leigja íslenskum viðskiptajöfrum afnot að þotunni fyrir
viðskiptaferðir til Evrópu. Á einum degi er hægt að ferðast til 2-3 borga
og koma aftur heim að kvöldi, sem getur þýtt gríðarlegt hagræði fyrir
þá sem tilbúnir eru að borga 130.000 kr. fyrir farið. Sem dæmi má nefna
að flug til London tekur tæpa 3 tíma með þessari snaggaralegu þotu.
Auk flugs með Íslendinga í viðskiptaerindum gerir félagið ráð fyrir ýmsum
verkefnum fyrir erlenda viðskiptavini sem eiga hagsmuna að gæta á Íslandi,
t.d. í tengslum við virkjanaframkvæmdir, ásamt sjúkraflugi og líffæraflutningum.
Þotan krúsar á allt að 430 hnútum (TAS) og er einungis um 20 mínútur til Akureyrar.
Vélin ber 8-9 farþega auk tveggja flugmanna. Hámarksflugtaksþungi er 20.000 pund
og flugdrægi 2.080 sjómílur með 4 farþega.
Nánari upplýsingar finnur þú á excel.cessna.com
Lendingarkeppni á Selfossi sl. laugardag
Lendingakeppni Flugklúbbs Selfoss, keppnin um Pétursbikarinn,
fór fram í blíðskaparveðri á Selfossflugvelli sl. laugardag, 28. september.
Keppnin hófst kl. 14:00 og mættu 6 keppendur til leiks.
Segja má að veðrið hafi verið of gott og því lítið um hliðarskrið og
önnur tilþrif en menn skelltu vélunum þó stundum harkalega niður til
að lenda á punktinum.
Þorsteinn Magnússon á Cherokee
TF-EOS sigraði með 77 refstig, Guðmundur Guðjónsson
á Cessna Skyhawk
TF-KRA varð í öðru sæti og
Höður Guðlaugsson á Cessna Skyhawk
TF-NEW í því þriðja.
Verðlaunin voru afhent eftir keppnina og menn gæddu sér á kaffi og kökum.
Pétursbikarinn er til minningar um Pétur Sigvaldason, sem gaf fyrsta framlagið til flugvallargerðar
á Selfossi.
Guðmundur Sveinbjörnsson vann Silfur-Jódelinn 2002
Seinni hluti Silfur-Jódel lendingarkeppninnnar fór fram á Tungubökkum laugardaginn 21. september.
Keppendur voru 11 talsins og framkvæmdi hver þeirra 4 lendingar. Vindur var um 10 hnútar
þvert á braut, alskýjað í 2500 fetum, en að öðru leyti ágætis flugveður.
Tilþrifin voru því talsverð þegar menn skáskutust til lendingar og áreynslan á hjólabúnað
vélanna einstaklega mikil þegar þeim var skellt niður sem næst markinu.
Í fyrsta sæti varð Guðmundur Sveinbjörnsson, flugkennari, á
TF-FTG
með 117 refsistig.
Hann sigraði einnig fyrri hluta keppninnar og er því ótvíræður sigurvegari keppninnar í ár.
Gamla kempan Ottó Tynes varð í öðru sæti á
TF-KAO með 150
refsistig og Sigurjón Valsson á
TF-UFO
í þriðja sæti með 159 refsistig.
Guðmundur og Jón Tynes dómari keppninnar,
fagna hér úrslitunum, en verðlaunin sjálf verða afhent
við hátíðlega athöfn síðar í haust.
Um 60-70 áhorfendur fylgdust með keppninni og fengu þeir í kaupbæti að njóta listflugsatriða
þegar
TF-CCB,
TF-BCX,
TF-TOY og
TF-UFO léku ótrúlegar hundakúnstir.
Flugsaga Íslands sýnd á sunnudaginn
Fyrsti þáttur Flugsögu Íslands verður sýndur í Sjónvarpinu
næstkomandi sunnudag 6. október kl. 20:00. Í kynningu sjónvarpsins segir:
Flugsaga Íslands er ein viðamesta og vandaðasta heimildarmyndaröð sem framleidd hefur verið hérlendis.
Í þessari fjögurra þátta röð er rakin oft á tíðum ævintýraleg saga flugs á Íslandi, allt frá upphafi hennar,
árið 1919, fram til okkar daga. Á þriðja tug manna sem mótað hafa flugsöguna á einn eða annan hátt koma fram
í þáttaröðinni. Áhersla var lögð á að finna og sýna myndefni sem ekki hefur komið fyrir augu almennings áður.
Fyrsti þátturinn nefnist Draumur sérhvers manns. Þar er m.a. rætt við nokkra frumkvöðla flugs hérlendis og því
líst hvernig menn tókust á við þessa nýju tækni á fyrri hluta síðustu aldar. Flugið sleit barnsskónum fram að
heimstyrjöldinni síðari og eygðu menn mikla möguleika í greininni.
Umsjónarmaður og handritshöfundur er Rafn Jónsson.
Dagskrárgerð annaðist Sævar Guðmundsson en Anna Dís Ólafsdóttir og
Jón Þór Hannesson hjá Saga film framleiddu þáttaröðina.
Uppsagnir hjá Flugleiðum
Flugleiðir sagði upp 14 flugmönnum um þessi mánaðamót og aðrir 20 hætta eftir mánuð. Alls hafa því
54 flugmenn fengið reisupassann frá því aðhaldsaðgerðir hófust í fyrra. Nú starfa 176 flugmenn hjá félaginu.
Fækkunin nemur því um 24% á rúmu ári. Nánar um þetta mál á vef mbl.is.
Þumalputtareglur óskast
Allir flugmenn eiga sínar uppáhalds þumalputtareglur. Dæmi: Skýjahæð í fetum = (Hitastig - Daggarmark) x 400.
Við hjá Flugheimi
erum nú að taka saman töflu yfir slíkar reglur til að birta á vefnum.
Ef þú lumar á einni slíkri máttu gjarnan senda okkur rafpóst á
ritstjorn@flugheimur.is.
Árangurinn birtist síðan í næstu viku.
Auglýsing: Útgáfa fréttarita á netinu
Hugmót ehf býður upp á þjónustu við útgáfu fréttarita á netinu, bæði
í formi fréttasíðna á vefnum og útgáfu tölvupóstsrita eins og
Flugfrétta.
Fleiri og fleiri stjórnendur gera sér ljóst að regluleg sending fréttatilkynninga til núverandi og
væntanlegara viðskiptavina, er ein áhrifaríkasta leiðin til að vekja á sér athygli í þeim hafsjó upplýsinga
sem finna má á netinu.
Veitt er aðstoð við að koma á fót söfnun og skráninga netfanga ásamt viðhaldi á póstlistum og
útsendingu til áskrifenda. Útlitshönnun og ráðgjöf við fréttaskrif, ásamt stöðluðum kerfum, tryggja góðan árangur.
Hafðu samband í síma 893-8227 eða sendu rafpóst á iht@hugmot.is.
Mundu að þú getur smellt á flestar myndirnar í þessu fréttariti, til að skoða stærri útgáfu af þeim.
Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta
fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/
og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!
Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti
og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!
Bestu kveðjur,
Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl