Flugfréttir 2. tbl. - 19.9.2002

Ýmislegt á döfinni í flugheimi

Efnisyfirlit:

Lendingarkeppni í Mosó

Seinni hluti Silfur-Jódel lendingarkeppninnar verður haldin á Tungubökkum laugardaginn 21. september, eða næstu daga á eftir ef ekki viðrar til flugs. Upphaflega var áformað að hafa hana 7. september, en vegna Vestmannaeyjaferðarinnar var henni frestað um viku. Þá viðraði illa til flugs og var henni því frestað aftur um eina viku.

Öllum er velkomið að taka þátt. Áhugasamir hafi samband við Kristján í síma 899-2650 eða Snorra í síma 868-5754. Keppendur mæti kl. 13:00 og keppnin hefst kl. 14:00. Kaffi, kökur og meðlæti á staðnum.


Lendingarkeppni á Selfossi 28.9.

Lendingakeppni Flugklúbbs Selfoss, keppnin um Pétursbikarinn, verður haldin á Selfossflugvelli laugardaginn 28. september 2002. Keppnin hefst stundvíslega kl. 14:00. Pétursbikarinn er til minningar um Pétur Sigvaldason, sem gaf fyrsta framlagið til flugvallargerðar á Selfossi.

Eru flugmenn hvattir til að taka þátt í keppninni, því eins og dæmin sanna getur skipt sköpum að vera í góðri æfingu ef til nauðlendingar kemur. Hafið samband við Kristbjörn í síma 862-2014 til að fá nánari upplýsingar. Takið síðan flugvélina, myndavélina og góða skapið með á Selfoss!


Ítarupplýsingar í Loftfaraskránni

Í Loftfaraskránni á Flugheimi erum við byrjaðir að skrá tilvísanir á ítarlegri upplýsingar um einstaka flugvélar. Dæmi um þetta finnur þú með því að skoða TF-ATU Fyrir neðan aðalmyndina birtist tengill á ítarlegri upplýsingar. Ef þú átt flugvél og hefur gert vefsíðu um hana, endilega sendu okkur skeyti og við bætum tenglinum við. Margar hendur vinna létt verk!


Flugsaga Íslands - ný heimildarmynd

Flugsaga Íslands heitir ný fjögurra þátta heimildarmynd sem Sjónvarpið sýnir á sunnudagskvöldum í október. Hver þáttur er 30 mínútur að lengd. Í þáttunum birtast myndskeið sem ekki hafa fyrr komið fyrir almenningssjónir, ásamt viðtölum við frumherjana og kappana sem mótuðu þessa sögu. Rafn Jónsson gerði handritið, Sævar Guðmundsson stjórnaði gerð þáttanna og SagaFilm framleiðir. Ekki missa af fyrsta þættinum sem sýndur verður 6. október næstkomandi!


Flugveðurþjónustan á Vefnum

Veðurstofa Íslands veitir eins og kunnugt er prýðisgóða veðurþjónustu fyrir alla landsmenn. Hitt vita færri, að sérfræðingarnir þar á bæ hafa undanfarið verið að þróa vefkerfi fyrir miðlun upplýsinga um flugveður. Þar er að finna veðurlýsingar frá helstu flugvöllum ásamt flugveðurspám, viðvörunum um veðrabrigði o.m.fl. Vefurinn er einkum ætlaður flugmönnum og flugrekstraraðilum. Fyrst um sinn er aðgangur ókeypis en takmarkaður við skráða notendur og þarf því að sækja um aðgang á sérstöku eyðublaði.

Markmið Veðurstofunnar er að fjármagna vefinn með því að biðla til fjársterkra styrktaraðila, en ef það gengur ekki, verða notendur þjónustunnar rukkaðir um vægt afnotagjald sem nemur áskrift að dagblaði. Jafnvel þótt það verði niðurstaðan, er ljóst að hér er á ferðinni bitastæð þjónusta sem allir flugmenn ættu að nýta sér til fulls.


Flugtengt efni á mbl.is

Þótt vefur Morgunblaðsins www.mbl.is miðli fyrst og fremst fréttum, þá er þar að finna eitt og annað tengt flugi. Má þar nefna upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla í áætlunarflugi, bæði fyrir innanlandsflug og millilandaflug. Mjög gagnlegar síður það, þegar maður þarf að sækja ættingja eða vini út á völl.

Einnig býður vefurinn upp á stórt myndasafn sem er öllum opið. Þar er m.a. að finna fjölda mynda sem tengjast flugi, sumar allt að 80 ára gamlar. Skoðið þetta á www.mbl.is/myndasafn.


Yfirlit yfir íslenskar flugbækur

Hér á Flugheimi höfum við tekið saman yfirlit um íslenskar flugbækur sem flugáhugamenn hafa kunnað vel að meta. Kíktu á listann, berðu hann saman við það sem þú átt í bókahillunni og drífðu þig síðan á fornbókasölurnar! Ef þú veist um fleiri bækur sem eiga heima á þessum lista, sendu okkur þá skeyti.


Sértilboð fyrir flugkappa óskast

Ef þú selur vörur sem eiga erindi til flugmanna eða flugáhugamanna, t.d. GPS-tæki, talstöðvar, kort, bækur, reiknivélar, módel, plaköt, myndavélar, filmur, framköllun, fatnað, sólgleraugu og þess háttar, máttu gjarnan hafa samband í síma 893-8227 eða með tölvupósti. Ætlun okkar er að bjóða sértilboð í hverju tölublaði Flugfrétta, þar sem kaupendum er veittur a.m.k. 10% afsláttur frá útsöluverði gegn framvísun tilboðsins. Ljóst er að allir munu hafa hag af þessu, bæði flugkappar og seljendur.


Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/ og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!

Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!

Bestu kveðjur,

Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl

 

Þú skráðir þig á póstlista Flugheims undir netfanginu jon@jonsson.is
Ef þú vilt skrá þig af listanum, sendu okkur þá skeyti þar um, á: afskra@flugheimur.is