Flugfréttir, 1. tölublað
  


Subject:  [Flugfréttir] - Nýtt íslenskt fréttarit um flugmál
   Date:  Thu, 5 Sep 2002 12:21:48 GMT
   From:  "Flugfréttir" <flugfrettir@flugheimur.is>

   
Flugfréttir, 1. tbl. -  5. september 2002
______________________________________________________

Efnisyfirlit:

  * Nýtt fréttarit um flugmál: Flugfréttir
  * Hópferð til Vestmannaeyja
  * Lendingarkeppni í Mosó
  * Nýtt sjónflugskort og kortabók
  * Flugpennar óskast
______________________________________________________

Ágæti flugáhugamaður!

Vefurinn http://www.flugheimur.is/ hefur nú verið 
starfræktur í eitt ár og er stöðugt í mótun.  Hann hefur 
fengið góðar móttökur og hafa margir flugkappar lýst yfir 
ánægju sinni með efni og útlit vefsins.  Sífellt bætast 
nýjar upplýsingar á vefinn ásamt fréttum og myndum úr 
íslenska flugheiminum.

Frá upphafi hafa ýmsir áhugasamir skráð sig á póstlistann en 
við höfum sent fá fréttaskeyti til áskrifenda fram að þessu.  
Nú höfum við ákveðið að hefja útgáfu á fréttariti um 
flugmál: Flugfréttir.  Í fyrstu verður það sent út 
mánaðarlega og jafnvel oftar ef þurfa þykir.  Efni þess 
verður fengið alls staðar að, fréttir, tilkynningar, 
sögusagnir, ábendingar og léttmeti.  Því verður aðeins 
dreift með tölvupósti, en eldri tölublöð verða auk þess 
aðgengileg á vefnum.  Megináherslan verður á gagnlegt 
innihald um flugmál og auglýsingum stillt í hóf.

Ef þú veist um einhvern sem þú telur að hafi áhuga á að fá 
þetta fréttarit sent til sín, bentu honum þá á skráninguna á 
vef Flugheims:  http://www.flugheimur.is/postlisti/

Við metum álit þitt mikils, og viljum gjarnan fá að heyra 
hvað þér finnst.  Allar hugmyndir um efnistök og 
framsetningu eru vel þegnar.  Ef þú stendur í flugtengdum 
rekstri, máttu gjarnan senda okkur fréttatilkynningar þegar 
það á við.  Sendu skeyti á ritstjorn@flugheimur.is

Fyrstu eintök þessa fréttarits verða á textaformi en ætlunin 
er að bjóða líka upp á HTML-útgáfu innan tíðar.
______________________________________________________

** Hópflug til Vestmannaeyja 7.-8. september **

Íslenska Flugmálafélagið stendur fyrir skemmtilegri uppákomu 
um næstu helgi: Hópferð einkaflugmanna og gesta til 
Vestmannaeyja.  Þar verður farið í skoðunarferðir, grillað, 
sunginn brekkusöngur og spjallað um flug og meira flug.  Á 
sunnudaginn verður listflug og útsýnisflug á dagskrá, en til 
að nálgast upprunann hyggjast menn klífa kletta og læra 
fluglistir af lundanum.

Nánari upplýsingar finnur þú á vef Flugmálafélagsins: 
http://www.flugmalafelag.is/frettir.asp?ID=77
Skráning fer fram á vef Geirfugls:  http://www.geirfugl.is
Ef illa viðrar um helgina verður bara farið næstu helgi, 13. 
til 14. september.  Drífum okkur til Eyja!
______________________________________________________

** Lendingarkeppni í Mosó **

Seinni hluti Silfur-Jódel lendingarkeppninnar verður haldin 
á Tungubökkum laugardaginn 14. september, eða næstu daga á 
eftir ef ekki viðrar til flugs.  Upphaflega var áformað að 
hafa hana 7. september, en vegna Vestmannaeyjaferðarinnar 
var henni frestað um viku.  Öllum er velkomið að taka þátt. 
Áhugasamir hafi samband við Kristján í síma 899-2650 eða 
Snorra í síma 868-5754.  Keppendur mæti kl. 13:00 og keppnin 
hefst kl. 14:00.  Kaffi, kökur og meðlæti á staðnum.
______________________________________________________

** Nýtt sjónflugskort og kortabók **

Flugmálastjórn hefur gefið út nýtt sjónflugskort fyrir 
Ísland.  Flugmenn fagna þessu framtaki og hyggjast sýna það 
í verki með því að kaupa eintak!  Sjónflugskortið er til 
sölu hjá gjaldkera Flugmálastjórnar, Helgu Ólafsdóttur, og 
kostar litlar 1.500 krónur. Netfangið hjá henni er 
helgao@caa.is og síminn 569-4127.

Einnig hefur Upplýsingadeild flugmála hjá Flugmálastjórn  
gefið út kortabók með flugleiðsögukortum í A5 broti.  Reynt 
hefur verið að hafa aðeins nauðsynlegustu upplýsingar í 
bókinni svo hún verði ekki of fyrirferðarmikil og nýtist sem 
best í litlu rými.  Pantaðu áskrift hjá Guðrúnu Mogensen á 
gudrunm@caa.is eða í síma 569-4116. Nánari upplýsingar á 
fréttavef Flugmálstjórnar, http://www.caa.is
______________________________________________________

** Flugpennar óskast **

Flugpennar?  Hvað er nú það?  Stundum er sagt að menn séu 
góðir pennar ef þeir eru sæmilega ritfærir.  Þeir menn sem 
geta skrifað um flugmál, köllum við því flugpenna!  Ef þú 
ert í þessum flokki flugáhugamanna, máttu gjarnan skrá þig á 
http://www.flugheimur.is/flugpennar/ og senda okkur síðan 
efni til birtingar á vefnum og/eða í þessu fréttariti.


Kær kveðja,

Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl

______________________________________________________

Þú skráðir þig á póstlista Flugheims undir netfanginu
xxx@fyrirtaeki.is
Ef þú vilt skrá þig af listanum, sendu okkur þá skeyti
þar um á:  afskra@flugheimur.is
______________________________________________________




 © 2002, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn